Niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2014

Skýrsla til Alþingis

11.11.2015

Í nýrri skýrslu gerir Ríkisendurskoðun grein fyrir niðurstöðum endurskoðunar ríkisreiknings og ársreikninga ríkisaðila fyrir árið 2014. Jafnframt bendir stofnunin á nokkur atriði sem hún telur að betur megi fara í reikningskilum og fjármálastjórn ríkisins.

Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Gerð er grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum þessarar vinnu í árlegri skýrslu til Alþingis.

Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2014 er bent á nokkur atriði sem Ríkisendurskoðun telur að betur megi fara í reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins. Meðal helstu athugasemda og ábendinga eru eftirfarandi:

  • Uppgjör ríkisreiknings víkur í veigamiklum atriðum frá almennum reikningsskilareglum. Þetta gildir um meðferð annars vegar varanlegra rekstrarfjármuna og hins vegar áfallinna verðbóta og gengisbreytinga á lánum og skuldbindingum ríkissjóðs. Ríkisendurskoðun telur að þessu eigi að breyta þannig að uppgjörið verði alfarið í samræmi við ákvæði laga um bókhald og ársreikninga.
  • Á árinu 2014 samþykkti Alþingi skuldbindandi greiðsluheimildir samtals að fjárhæð 54,2 milljarðar króna vegna niðurfærslu fasteignalána. Það samsvarar þremur fjórðu hlutum heildarfjárhæðar niðurfærslunnar samkvæmt lögum nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Ríkisendurskoðun vekur athygli á að einungis helmingur heildarfjárhæðarinnar, eða 35,8 milljarðar króna, var færður til gjalda í ríkisreikningi 2014.
  • Ríkisendurskoðun bendir á að hækka þarf heildariðgjald til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins úr 15,5% í 19,4% til að ná heildarstöðu hennar í jafnvægi.

Auk þess leggur stofnunin til

  • að birt verði yfirlit með ríkisreikningi um þau málaferli sem íslenska ríkið er aðili að og varða verulega fjárhagslega hagsmuni.
  • að Fjársýsla ríkisins geri þjónustusamninga við þær ríkisstofnanir sem hún veitir greiðslu- og bókhaldsþjónustu.
  • að áætlanir vegna álagningar opinberra gjalda verði sérgreindar í tekjubókhaldskerfi ríkisins.
  • að framsetning markaðra tekna í fjárlögum og ríkisreikningi verði tekin til skoðunar.

Ýmsar aðrar athugasemdir og ábendingar er að finna í skýrslunni sem er að vanda efnismikil.

46 milljarða króna tekjuafgangur
Heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2014 námu 642,5 milljörðum króna en tekjurnar 688,9 milljörðum króna. Því varð um 46,4 milljarða króna tekjuafgangur af rekstrinum. Bókfærðar eignir námu 1.168  milljörðum króna í árslok og hækkuðu um 104 milljarða króna milli ára. Heildarskuldir ríkissjóðs námu 2.027 milljörðum í árslok og hækkuðu um 94 milljarða króna milli ára, þarf af hækkuðu lífeyrisskuldbindingar um 28 milljarða króna. Eigið fé í árslok var neikvætt um 860 milljarða króna.

Sjá nánar