Bæta þarf upplýsingamiðlun um starfsemi hjúkrunarheimila

Skýrsla til Alþingis

12.05.2015

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að bæta miðlun upplýsinga um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila. Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila á árunum 2008–2010. Í skýrslunni var bent á að velferðarráðuneytið safnaði ítarlegum gögnum um þessa þætti en þau væru ekki aðgengileg nema fáum. Ríkisendurskoðun hvatti ráðuneytið til að bæta úr þessu. Mikilvægt væri að unnar væru aðgengilegar upplýsingar úr gögnunum og þær birtar á heimasíðu ráðuneytisins. Þannig væri stuðlað að upplýstum og markvissum ákvörðunum um málefni heimilanna.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur upplýsingamiðlun um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila lítið breyst. Stofnunin ítrekar því ábendingu sína frá 2012 en þó með örlítið breyttu sniði. Velferðarráðuneytið er hvatt til að skilgreina lykilupplýsingar um rekstur og starfsemi heimilanna og tryggja að þær séu aðgengilegar.

Sjá nánar