10.02.2021
Ríkisendurskoðun mun opna skrifstofu á Akureyri á næstu vikum. Hefur það verið í undirbúningi um nokkurt skeið að opna skrifstofu utan Reykjavíkur. Verkefni skrifstofunnar verða fjárhagsendurskoðun á ríkisaðilum í A-hluta ríkisreiknings (stofnunum) sem hafa starfsstöðvar á Norður- og Austurlandi. Eru það m.a. ýmsar heilbrigðisstofnanir, sýslumenn, menntastofnanir, löggæsla auk fleiri embætta og stofnana. Sömuleiðis mun skrifstofan sinna ákveðnum verkefnum fyrir landið allt með rafrænum hætti.
Stefnt er að því að fyrst um sinn muni fjórir til fimm starfsmenn starfa á skrifstofunni á Akureyri en reynslan mun skera úr um hvernig þau mál muni þróast.
Störf hafa verið auglýst laus til umsóknar á Starfatorgi og einnig verður auglýst í fjölmiðlum á Akureyrarsvæðinu. Skrifstofan verður að Glerárgötu 34.
Guðmundur B. Helgason sérfræðingur á skrifstofu ríkisendurskoðanda mun stýra skrifstofunni fyrst um sinn og fer til þessa verkefnis í mars 2021.