24.02.2021
Með lögum nr. 139/2018, um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, var gerð sú breyting að frá og með árinu 2020 bar Ríkisendurskoðun að birta ársreikninga stjórnmálasamtaka í heild sinni. Fram að því hafði framkvæmdin verið með þeim hætti að Ríkisendurskoðun útbjó og birti útdrátt úr ársreikningum stjórnmálasamtaka eftir að hafa yfirfarið þá.
Ársreikningar stjórnmálasamtaka voru samkvæmt framangreindu í fyrsta sinn birtir í heild sinni á vef Ríkisendurskoðunar sl. haust vegna rekstrarársins 2019. Framkvæmdin gekk vel fyrir sig en með hliðsjón af reynslunni hefur Ríkisendurskoðun nú yfirfarið leiðbeiningar embættisins, um reikningshald og skil stjórnmálasamtaka á upplýsingum, með það að markmiði að gera þær skýrari.
Drög að leiðbeiningunum voru send stjórnmálasamtökum til umsagnar í byrjun febrúarmánaðar. Athugasemdir bárust frá einum stjórnmálasamtökum en þær leiddu ekki til efnislegra breytinga á leiðbeiningunum.