Móta þarf heildarstefnu um förgun úrgangs

Skýrsla til Alþingis

11.05.2011

Ísland fékk undanþágu frá tilskipun ESB um brennslu úrgangs með ákveðnum skilyrðum. Ríkisendurskoðun telur að umhverfisráðuneytið hafi ekki framfylgt þessum skilyrðum með nægilega markvissum hætti. Þá sé brýnt að Umhverfisstofnun beiti þeim lagaheimildum sem hún hefur til að tryggja að sorpbrennslustöðvar fari að settum reglum.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um framkvæmd reglna um sorpbrennslustöðvar hér á landi og eftirlit með starfsemi þeirra. Árið 2000 gaf Evrópusambandið (ESB) út tilskipun sem m.a. setti strangari reglur en áður giltu um hámarkslosun sorpbrennslustöðva á mengandi efnum út í andrúmsloftið. Vegna aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) bar íslenskum stjórnvöldum að innleiða tilskipunina hér. Þau sóttust hins vegar eftir því að starfandi sorpbrennslustöðvar hér á landi fengju undanþágu frá ákvæðum hennar þar sem mengun frá þeim væri lítil og kostnaður við að uppfylla kröfurnar yrði þeim ofviða. ESB féllst á þessi sjónarmið og árið 2003 fengu sjö sorpbrennslustöðvar ótímabundna undanþágu. Nú starfa þó einungis þrjár þeirra samkvæmt henni en þær eru á Svínafelli í Öræfum, Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum.

Undanþága frá ákvæðum tilskipunarinnar var veitt með þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi áttu sorpbrennslustöðvar sem hún náði til að mæla árlega losun tiltekinna mengandi efna og uppfylla ákvæði eldri tilskipana ESB sem innleiddar hafa verið hér á landi. Í öðru lagi áttu stöðvarnar að mæla losun eiturefnisins díoxíns einu sinni og í þriðja lagi átti að endurskoða undanþáguna að fimm árum liðnum eða þegar ódýrari tækni gerði stöðvunum mögulegt að uppfylla kröfur tilskipunarinnar. Ríkisendurskoðun telur að umhverfisráðuneytið hafi ekki framfylgt þessum skilyrðum með nægilega markvissum hætti. Þá hafi ráðuneytið heldur ekki séð til þess að óljós atriði skilyrðanna væru skýrð.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf ráðuneytið að hafa forgöngu um að móta heildstæða stefnu um förgun úrgangs hér á landi sem byggi á niðurstöðum rannsókna og faglegu mati. M.a. þarf að meta hvort sorpbrennslustöðvar eigi að starfa áfram og hvort ríkisvaldið eigi að einhverju leyti að taka þátt í uppbyggingu þeirra.

Þær sorpbrennslustöðvar sem undanþágan tekur til hafa ítrekað brotið gegn ákvæðum reglugerða sem um þær gilda og byggja m.a. á tilskipunum ESB. Umhverfisstofnun hefur krafið stöðvarnar um úrbætur en ekki lagt dagsektir á þær eða svipt þær starfsleyfum, eins og hún getur gert að vissum skilyrðum uppfylltum. Ríkisendurskoðun telur að Umhverfisstofnun eigi að beita þeim lagaheimildum sem hún hefur til að tryggja að sorpbrennslustöðvar fari að settum reglum. Í skýrslunni kemur fram að Umhverfisstofnun hafi að undanförnu breytt starfsháttum sínum og eflt eftirlit sitt með hvers kyns mengandi starfsemi.

Árið 2007 var díoxínlosun mæld hjá þremur af þeim fjórum sorpbrennslustöðvum sem þá störfuðu samkvæmt undanþágu frá tilskipun ESB. Díoxín er þrávirkt lífrænt efni sem getur aukið líkur á krabbameini og valdið öðrum kvillum í mönnum og dýrum. Niðurstöður þessara mælinga gáfu til kynna að losunin væri langt yfir þeim mörkum sem sett eru í tilskipuninni. Engu að síður fylgdu hvorki Umhverfisstofnun né umhverfisráðuneytið þessum mælingum eftir, t.d. með því að kanna möguleg áhrif losunarinnar á umhverfi stöðvanna. Þá sá Umhverfisstofnun ekki til þess að díoxínlosun frá fjórðu stöðinni, á Svínafelli, væri mæld. Ríkisendurskoðun telur brýnt að Umhverfisstofnun leggi ávallt faglegt mat á niðurstöður mengunarmælinga og miðli því til rekstraraðila stöðvanna, ráðuneytisins og almennings.

Sem fyrr greinir átti að endurskoða undanþáguna þegar fimm ár væru liðin frá gildistöku hennar eða þegar ódýrari tækni gerði stöðvunum mögulegt að uppfylla kröfur tilskipunarinnar. Ekki var skilgreint hvernig þessi endurskoðun skyldi fara fram né hver bæri ábyrgð á henni. Í skýrslunni kemur fram að umhverfisráðuneytið hafi ekki haft frumkvæði að endurskoðuninni eins og því bar að gera að mati Ríkisendurskoðunar. Nú hefur Umhverfisstofnun hins vegar lagt til að undanþágan verði felld úr gildi í árslok 2012.

Auk þess að gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa ekki framfylgt skilyrðum undanþágunnar nægilega vel bendir Ríkisendurskoðun á að beiðni um undanþágu hafi ekki verið studd nægilega vel með gögnum. Þannig hafi stjórnvöld t.d hvorki lagt fram ítarlega greiningu á þeim kostnaði sem innleiðing tilskipunarinnar hefði í för með sér fyrir sorpbrennslustöðvarnar hér né heldur sýnt fram á með faglegum mælingum að mengun frá þeim væri lítil. Að mati Ríkisendurskoðunar vekur athygli hve lítið bar á umhverfis- og heilsuverndarsjónarmiðum í málflutningi íslenskra stjórnvalda. Sjónarmið rekstraraðila stöðvanna, sem eru sveitarfélög, virðast hafa ráðið mestu um afstöðu stjórnvalda. Engu að síður féllst ESB á rök þeirra í trausti þess að skilyrðum undanþágunnar yrði framfylgt.

Sjá nánar