Umhverfisstofnun. Stjórnsýsluúttekt

Skýrsla til Alþingis

09.10.2006

Meginmarkmið stjórnvalda með stofnun Umhverfisstofnunar hafa einungis að hluta til náð fram að ganga. Fyrir þessu eru aðallega tvær ástæður: Annars vegar hafa umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun ekki verið nægjanlega samstiga í afstöðu sinni til forgangsröðunar þeirra málefna sem stofnunin sinnir. Hins vegar hefur stofnunin ekki nýtt sér til fullnustu möguleika sína að ná fram aukinni hagkvæmni, svo sem með auknu samstarfi sviða og markvissu verkbókhaldi.

Umhverfisstofnun var komið á fót árið 2003 með sameiningu fjögurra opinberra stofnana og er henni m.a. ætlað að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Með sameiningunni var einkum leitast við að ná eftirfarandi markmiðum: Að einfalda og styrkja stjórnsýslu umhverfismála, að efla faglega þætti á þessu sviði, að stuðla að hagkvæmni í rekstri og að auðvelda stjórnvöldum að ná fram stefnumiðum sínum á sviði umhverfismála. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er leitast við að meta hvernig til hafi tekist.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að ekki hafi gengið nægjanlega vel að ná upphaflegum markmiðum Umhverfisstofnunar sem reyndar hefðu mátt vera skýrari í upphafi. Sameiningin stuðlaði að vísu að fækkun í yfirstjórn þeirra málaflokka sem falla undir stofnunina og einfaldaði umsagnarferlið í málaflokkunum. Ekki liggja hins vegar fyrir skýrar vísbendingar um að stjórnsýsla umhverfismála hafi almennt styrkst með sameiningunni eða að hún hafi almennt stuðlað að hagkvæmni eða faglegri framþróun í þeim málaflokkum sem heyra undir Umhverfisstofnun.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að verkefni Umhverfisstofnunar eru mjög fjölþætt og umfangsmikil og að á hana hafa verið lagðar margvíslegar nýjar skyldur, m.a. vegna fjölda reglugerða sem varða aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Umhverfisstofnun telur sig ekki hafa fengið nægt fé með þessum verkefnum og hefur því farið fram á auknar fjárveitingar. Þá telur stofnunin sig skorta fé vegna rekstrar og viðhalds þjóðgarða. Ráðuneytið hefur ekki að öllu leyti fallist á þetta sjónarmið. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að umhverfisráðuneytið fari yfir þessi mál með stofnuninni og að þessir aðilar nái sameiginlegri niðurstöðu um forgangsröðun verkefna og fjárþörf stofnunarinnar. Í þessu samhengi telur Ríkisendurskoðun einnig mikilvægt að umhverfisráðuneytið ljúki við gerð árangursstjórnunarsamnings við stofnunina.

Ríkisendurskoðun bendir á að fagleg þekking innan Umhverfisstofnunar sé almennt góð. Þessi þekking hefur þó ekki að öllu leyti nýst sem skyldi, þ.e. stuðlað að markvissari vinnubrögðum, hagkvæmari rekstri og betri þjónustu. Ástæðan er m.a. sú að skipurit stofnunarinnar tekur um of mið af starfsemi þeirra stofnana sem sameinuðust í henni. Mikilvægt er að endurskoða skipuritið og efla samstarf einstakra sviða. Samhliða því þyrfti stofnunin að koma á verkbókhaldi svo að unnt sé að meta árangur hennar og fjárþörf og finna leiðir til aukinnar hagkvæmni í rekstri. Að auki þyrfti að endurskoða löggjöf um verkefni stofnunarinnar.

Sjá nánar