22.02.2022
Ríkisendurskoðun hefur nú lokið úttekt á fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni stofnana ríkisins og tekur úttektin mið af því hvernig ráðuneytisskipan Stjórnarráðsins var um áramótin 2020-21. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.
Ríkisstofnunum hefur fækkað um 94 frá árinu 1998 þegar þær voru 250 talsins sem er fækkun um tæp 38%. Stofnunum hefur einkum fækkað vegna sameininga, hlutafjárvæðingar og flutnings verkefna til sveitarfélaga. Um tveir þriðju hlutar ríkisstofnana eru á höfuðborgarsvæðinu en um þriðjungur á landsbyggðinni. Athygli vekur að ríflega helmingur allra stofnana ríkisins eru með 50 starfsmenn eða færri.
Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til tillagna sem lagðar hafa verið fram í fjölda skýrslna um aukið samstarf stofnana. Þrír starfshópar á vegum stjórnvalda hafa frá árinu 2013 unnið tillögur sem ganga út á einföldun stofnanakerfis ríkisins en þróunin í þá átt hefur verið hæg.
Ríkisendurskoðun ítrekar mikilvægi þess að kanna möguleika á samvinnu stofnana ef sameining er ekki fýsilegur kostur. Er lagt til að fjármála- og efnahagsráðuneyti leiði slíka vinnu m.a. með því að efla aðgengi að miðlægri stoðþjónustu.
Enn fremur leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að tryggja þurfi að ráðuneyti hafi á hverjum tíma góða yfirsýn um undirstofnanir sínar, ekki síst til að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni.
Skýrslan hefur nú verið birt á vef Ríkisendurskoðunar og má nálgast hér