23.03.2023
Í dag var stafræn þjónusta fyrir ársreikningaskil kirkjugarða formlega tekin í notkun þegar Kirkjugarðar Akureyrar skiluðu ársreikningi sínum fyrir rekstrarárið 2022 með stafrænum hætti. Eru þeir því fyrstu viðskiptavinir Ríkisendurskoðunar til að skila ársreikningi með þessum hætti. Þjónustan felur m.a. í sér að hluti þeirra upplýsinga sem kirkjugörðum ber að skila er forskráður og kirkjugörðum sem uppfylla ákveðin skilyrði verður nægjanlegt að skila inn tilteknum upplýsingum í stað ársreiknings.
Samhliða þessu hefur verið opnað fyrir stafræn skil á ársreikningum stjórnmálasamtaka og uppgjörum einstaklinga í persónukjöri (þ.e. væntanlegum persónukjörum).
Á undanförnum mánuðum hefur Ríkisendurskoðun í samvinnu við Stafrænt Ísland unnið að því að gera þjónustu við viðskiptavini sína stafræna. Verkefninu sem fékk nafnið STÁR (stafrænir ársreikningar) var ætlað að vera fyrirmynd annarra stofnana sem vilja koma þjónustu sinni í stafrænt form með tiltölulega litlum tilkostnaði. STÁR verkefnið byggir á stafrænum samskiptum, sjálfsafgreiðslu viðskiptavina og stuðningi við stafræna innviði þar sem gengið er út frá því að nýta sem best þær lausnir sem eru til og ríkið er nú þegar að greiða fyrir.
Ríkisendurskoðun ákvað að setja ekki upp sérstakar „mínar síður“ á heimasíðu embættisins en gera þess í stað þjónustuna aðgengilega á island.is og nýta þá innviði sem þar eru fyrir. Notast er við innskráningarþjónustu island.is fyrir rafræn skilríki, skráningarformin sem viðskiptavinir fylla út vegna ársreikninga eru tilbúnar einingar í umsóknarkerfi Stafræns Íslands og hönnun notendaviðmótsins tekur að öllu leyti mið af því notendaviðmóti sem notað er á island.is og notendur þekkja nú þegar. Gögnin sem verða til við skilin eru vistuð í Microsoft DataVerse gagnagrunni sem er í skýjaþjónustu Microsoft og notendaviðmót starfsfólks fyrir innra vinnslukerfi er smíðað í Microsoft PowerApps, sem hvoru tveggja er nú þegar greitt fyrir í gegnum samning íslenska ríkisins og Microsoft. Að auki stofnar kerfið sjálfkrafa mál í málakerfi embættisins, GoPro Foris, og skjalar gögnin þar.
Það má því segja að með STÁR verkefninu verði til einskonar „pakkalausn“ í skýinu með innskráningarþjónustu, umboðskerfi og umsóknarkerfi frá Stafrænu Íslandi auk gagnagrunnslausna og bakendakerfis sem er innifalið í skýjalausnum Microsoft, og getur því nýst öðrum stofnunum ríkisins án mikils tilkostnaðar. Stofnanir sem eru jafnvel óháðar hver annarri geta því samnýtt þessa tæknilegu innviði. Í því getur falist mikil hagræðing og ótal tækifæri til að nýta fjármuni ríkisins sem best.