Samantekt um fjárskuldbindingar ráðherra

Skýrsla til Alþingis

03.05.2023

Fjárskuldbindingar ráðherra á tímabilinu 13. júní til 23. nóvember 2021 áttu sér í almennt stoð í fjárlögum eða samþykktum ríkisstjórnar eða Alþingis. Flest ráðuneyti hafa sett sér reglur um styrkveitingar og auglýstu eftir styrkumsóknum í samræmi við þær. Það átti þó ekki við í öllum tilvikum. Flest ráðuneyti gættu þess að geta um útgjöld styrkja og framlaga, sem veitt voru í samræmi við 42. gr. laga um opinber fjármál, í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga og í ársskýrslu. Þetta átti þó ekki alltaf við og telur Ríkisendurskoðun ástæðu til að brýna ráðuneyti til að bæta úr þessu.

Tilefni úttektarinnar var að Alþingi samþykkti beiðni um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um framlög, styrki, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samninga allra ráðherra sem kunna að hafa falið í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð. Líta skyldi til tímabilsins frá og með frestun á fundum Alþingis á 151. löggjafarþingi 13. júní 2021 og til setningar 152. löggjafarþings 23. nóvember 2021.

Ríkisendurskoðun setti fram tvær ábendingar. Annars vegar um að tryggja verði að öll ráðuneyti uppfæri og birti opinberlega reglur um styrkveitingar og hins vegar um að gæta þurfi að gagnsæi við skuldsetningu vegna verkefna á vegum ríkisins og forðast að láta félög sem ekki búi yfir mannauð og sérþekkingu á sviði byggingaframkvæmda sjá um framkvæmdir og lántöku vegna þeirra. Síðari ábendingin kom til vegna byggingar á nýju flugskýli fyrir Landhelgisgæslu Íslands.

Sjá nánar skýrslu um fjárskuldbindingar ráðherra

Mynd með frétt