Bæta þarf eftirlit Fiskistofu

Skýrsla til Alþingis

05.06.2023

Matvælaráðuneyti og eftir atvikum Fiskistofa hafa ekki brugðist með viðunandi hætti við úrbótatillögum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2018 varðandi eftirlit stofnunarinnar með vigtun sjávarafla, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda. Nauðsynlegar úrbætur hafa ekki náð fram að ganga og flestir þeirra veikleika sem Ríkisendurskoðun fjallaði um eru enn til staðar. 

Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniúttekt Ríkisendurskoðunar sem stofnunin kynnti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag. Ríkisendurskoðun telur tilefni til að ítreka í heild eða að hluta 10 af 11 úrbótatillögum sem stofnunin lagði fram í skýrslu sinni árið 2018. 

Eftirlit Fiskistofu með vigtun afla og brottkasti er enn takmarkað og vísbendingar eru um að umfang brottkasts hafi verið vanmetið. Fiskistofa hefur ekki tekið upp verklag sem tryggir að yfirráð tengdra aðila yfir aflahlutdeildum séu könnuð með markvissum og reglubundnum hætti. Stofnunin skortir greinargóða yfirsýn um bein og óbein tengsl aðila í íslenskum sjávarútvegi.

Sjá nánar

Mynd með frétt