Stjórnsýslu- og fjárhagsendurskoðun á Sinfóníuhljómsveit Íslands

Skýrsla til Alþingis

18.09.2023

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er vakin athygli á viðvarandi veikleikum í rekstri og áætlanagerð hljómsveitarinnar sem að miklu leyti má rekja til lækkandi hlutfalls sértekna. Árin 2017‒2019 voru sértekjur hljómsveitarinnar að meðaltal um 18% af heildartekjum. Árin 2021 og 2022 var hlutfallið um 10%. Þessi tvö ár voru tekjur vegna miðasölu um 436 m.kr. undir áætlun. Í árslok 2022 var svo komið að eigið fé hljómsveitarinnar var neikvætt sem nam 51,5 m.kr. Það ár var hljómsveitin rekin með 100 m.kr. halla. Í skýrslunni er auk þess vakin athygli á veikleikum sem snúa að starfsmannahaldi, innra skipulagi og vinnustaðamenningu hljómsveitarinnar. 

Í skýrslunni leggur Ríkisendurskoðun fram fjórar ábendingar um nauðsynlegar úrbætur. Í fyrsta lagi að menningar- og viðskiptaráðuneyti bæti eftirlit sitt með fjármálum hljómsveitarinnar í samræmi við 34. gr. laga um opinber fjármál og bregðist við áhættu og veikleikum í rekstri sveitarinnar. Í öðru lagi telur Ríkisendurskoðun tilefni til að ráðuneytið kanni hvort skýra þurfi rekstrarlega og eignarréttarlega stöðu hljómsveitarinnar í lagalegum skilningi. Í þriðja lagi beinir Ríkisendurskoðun því til bæði ráðuneytisins og hljómsveitarinnar að endurskoða þurfi stefnumarkmið hljómsveitarinnar í ljósi þess hvernig reksturinn hefur þróast síðustu ár. Í fjórða lagi beinir Ríkisendurskoðun því til hljómsveitarinnar að hlúa betur að innri starfsemi og mannauð m.a. í því skyni að bæta vinnustaðamenningu hjómsveitarinnar. 

Viðbrögð bæði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og menningar- og viðskiptaráðuneytis gagnvart ábendingum Ríkisendurskoðunar eru tíunduð í skýrslunni. 

Sjá nánar skýrslu um stjórnsýsluúttekt á Sinfóníuhljómsveit Íslands

Mynd með frétt