16.10.2024
Samkeppniseftirlitið og menningar- og viðskiptaráðuneyti hafa ekki brugðist með fullnægjandi hætti við þeim átta úrbótatillögum sem birtust í skýrslu Ríkisendurskoðunar í ágúst 2022, Samkeppniseftirlitið - samrunaeftirlit og árangur. Brugðist hefur verið við sumum tillögum embættisins að hluta til en Samkeppniseftirlitið og ráðuneytið eru sammála um að stofnunin þurfi talsvert aukið fjármagn ef henni á að takast að ljúka vinnunni. Samkeppniseftirlitið opnaði í kjölfar stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar upplýsingasíðu, þar sem m.a. má finna verkefnaáætlun sem byggir á úrbótatillögum Ríkisendurskoðunar og hefur hún verið uppfærð þrisvar sinnum. Er þar að einhverju leyti hægt að sjá framvindu þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað vegna tillagna Ríkisendurskoðunar.
Þetta er niðurstaða fyrri eftirfylgni Ríkisendurskoðunar með skýrslunni en gert er ráð fyrir að hefðbundin eftirfylgni fari fram síðla árs 2025. Hefðbundið er að Ríkisendurskoðun fylgi úttektum sínum eftir að þremur árum liðnum frá útgáfu en ákveðið var að þessu sinni að ráðast í fyrri eftirfylgni til að kanna hvort Samkeppniseftirlitið og menningar- og viðskiptaráðuneyti hefðu hafist handa við að bregðast við þeim úrbótatillögum sem lagðar voru fram.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var m.a. lagt til að Samkeppniseftirlitið myndi formfesta betur skipulag innra eftirlits og innleiða innri endurskoðun. Ljúka þyrfti endurskoðun málsmeðferðar- og verklagsreglna, endurskoða samrunagjald og ráðast í markvissar aðgerðir vegna villandi samrunatilkynninga.
Þegar úrbótatillögurnar voru lagðar fram voru þær á ábyrgðarsviði Samkeppniseftirlitsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem fór með málefni stofnunarinnar og samkeppnismála. Með breyttri skipan ráðuneyta voru málefnin flutt yfir til menningar- og viðskiptaráðuneytis. Vegna eftirfylgninnar var óskað eftir viðbrögðum, upplýsingum og gögnum frá viðkomandi ábyrgðaraðilum í mars 2024 og lauk gagnaöflun í maí sama ár.