Fyrri eftirfylgni vegna skýrslu um Landhelgisgæsluna lokið

Skýrsla til Alþingis

22.10.2024

Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneyti eiga enn eftir að bregðast við stórum hluta þeirra úrbótatillagna sem settar voru fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2022 um starfsemi stofnunarinnar. Brugðist hefur verið við einni tillögu embættisins af níu. Þó er ljóst að vinna er hafin í mörgum öðrum tilvikum. Ríkisendurskoðun hvetur Landhelgisgæsluna og ráðuneytið til að halda áfram þeirri vinnu og tryggja að henni ljúki sem fyrst.

Þetta er niðurstaða fyrri eftirfylgni Ríkisendurskoðunar með skýrslunni en gert er ráð fyrir að hefðbundin eftirfylgni fari fram síðla árs 2025. Hefðbundið er að Ríkisendurskoðun fylgi úttektum sínum eftir að þremur árum liðnum frá útgáfu en ákveðið var að þessu sinni að ráðast í fyrri eftirfylgni til að kanna hvort Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneyti hefðu hafist handa við að bregðast við þeim úrbótatillögum sem lagðar voru fram. Óskað var eftir viðbrögðum, upplýsingum og gögnum frá viðkomandi ábyrgðaraðilum í janúar 2024 og lauk gagnaöflun í apríl sama ár.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var m.a. lagt til að bæta þyrfti eftirlit með landhelginni, að hugað yrði að fyrirkomulagi varnartengdra verkefna og að skoðaðir yrðu hagræðingarmöguleikar í rekstri stofnunarinnar. Sú tillaga sem Landhelgisgæslan og ráðuneytið hafa brugðist við að fullu snýr að framkvæmd varnartengdra verkefna. Gerðar hafa verið lagfæringar á samstarfi stofnunarinnar og utanríkisráðuneytis og hefur samstarf þeirra um verkefnin gengið vel.

Mynd með frétt