16.12.2024
Samkvæmt 9. gr. laga nr. 162/2006, um starfsemi stjórnmálasamtaka, ber stjórnmála-samtökum að skila ársreikningi fyrir 1. nóvember ár hvert ár til ríkisendurskoðanda og skal hann, eins fljótt og unnt er, birta móttekna ársreikninga. Bent er á að skilaskyld eru stjórnmálasamtök, eins og þau eru skilgreind í lögunum, það er flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.
Ríkisendurskoðun hefur nú yfirfarið ársreikninga stjórnmálasamtaka og eftir atvikum kallað eftir skýringum og leiðréttingum. Þeir ársreikningar sem uppfylla skilyrði laganna sem og leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar um reikningshald stjórnmálasamtaka hafa nú verið birtir.
Skil ársreikninga eru óviðunandi hvað varðar stjórnmálasamtök sem bjóða fram til sveitarstjórna. Ríkisendurskoðun skorar á þau samtök sem enn eiga eftir að skila að gera skil sem allra fyrst.
Sérstök athygli er vakin á því að meðal skilyrða fyrir úthlutun opinberra framlaga ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálasamtaka skv. 5. gr. a laga um stjórnmálasamtök er að Ríkisendurskoðun hafi birt ársreikning samtakanna og að þau séu skráð sem stjórnmálasamtök.
Upplýsingar um skil má finna á vef Ríkisendurskoðunar og um skráningu á vef Skattsins.