Óbreytt ástand í skilum ársreikninga sjóða og sjálfseignastofnana

Staðfestir sjóðir og stofnanir

27.01.2025

Ríkisendurskoðun hefur nú birt útdrátt úr ársreikningum sjálfseignarstofnana og sjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Er þetta í síðasta skiptið sem Ríkisendurskoðun birtir slíkan útdrátt en með lögum nr. 112/2024 sem tóku gildi 1. janúar 2025 voru gerðar breytingar á lögum um sjóði og sjálfseignarstofnanir nr. 19/1988. Þær breytingar lúta m.a. að því að framvegis ber ábyrgðaraðilum að senda ársreikninga til sýslumanns auk þess sem sýslumaður skal nú halda skrá yfir ársreikninga sjóða og stofnana sem undir lögin heyra. Verkefni þetta heyrir nú undir sýslumanninn á Vestfjörðun skv. reglugerð nr. 1125/2006. 

Alls bar 681 sjóðum og stofnunum að skila ársreikningi til Ríkisendurskoðunar fyrir rekstrarárið 2023. Í desember 2024 höfðu 407 staðfestir sjóðir og stofnanir uppfyllt þessa skyldu en ársreikningar 274 sjóða og stofnana höfðu ekki borist embættinu. Höfðu því um 60% ársreikninga borist tæpum sex mánuðum eftir eindaga skila. Þá vekur athygli að 37 virkir sjóðir hafa aldrei skilað ársreikningi til embættisins þrátt fyrir árvissar ítrekanir þar um.

Ríkisendurskoðun bendir á, líkt og síðustu ár að í áhættumati Ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka sem gefið var út í desember árið 2023 er sérstaklega fjallað um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og ófullnægjandi skil þeirra á ársreikningum síðustu ár. Í áhættuflokkun Ríkislögreglustjóra er áhættan af því að slíkar stofnanir eða sjóðir verði notaðar til að þvætta ólögmætan ávinning metin veruleg. Ríkisendurskoðun hefur árum saman bent á að mikilvægt sé að bregðast við þessari áhættu með einhverjum hætti. 

Með breytingarlögum sem nefnd voru hér að framan eru gerðar breytingar sem veita væntingar um að skil á ársreikningum sjóða og sjálfseignarstofnana muni batna. Með breytingarlögunum eru hæfisskilyrði sett á stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og fjárvörsluaðila og er sýslumanni veitt heimild til að kanna hæfi. Þá er hnykkt á bókhaldsskyldu, sem hefur þó verið til staðar auk þess sem krafa er gerð um að ársreikningur sé endurskoðaður. Þá er skylda lögð á sýslumann að leggja stjórnvaldssektir, að fjárhæð 600 þús. kr. ef vanskil verða á skilum ársreikninga. Að lokum var refsiákvæði bætt inn í lögin vegna þeirra aðila sem skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum sjóðs eða stofnunar. 

Sjá nánar skýrslu um skil ársreikninga staðfestra sjóða og stofnana fyrir árið 2023.

Mynd með frétt