Skil á ársreikningum kirkjugarða vegna rekstrarársins 2023

Kirkjugarðar og sóknir

07.02.2025

Frá og með tekjuárinu 2022 var skilum á ársreikningum kirkjugarða til Ríkisendurskoðunar breytt og því beint til aðila að skila ársreikningum stafrænt. Ríkisendurskoðun heldur á vefsíðu sinni úti skilalista þar sem sjá má hvaða kirkjugarðar hafa skilað ársreikningi og hverjir þeirra eru í vanskilum

Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með ársreikningum kirkjugarða sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Kirkjugarðsstjórnum er samkvæmt sömu lögum skylt að senda ársreikninga næstliðins árs til embættisins fyrir 1. júní ár hvert. 

Í hinum níu prófastsdæmum landsins eru 242 kirkjugarðar sem skila eiga ársreikningum til Ríkisendurskoðunar vegna rekstrarársins 2023. Í janúar 2025 höfðu embættinu borist ársreikningar frá 176 kirkjugörðum og höfðu því um 73% ársreikninga borist sjö mánuðum eftir eindaga skila. 

Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, með síðari breytingum, skal rekstur kirkjugarða greiddur úr ríkissjóði samkvæmt fjárveitingu í fjárlögum. Framlagið tekur mið af fjölda látinna næstliðins árs og stærð grafarsvæða. Útreikningur framlags skal byggjast á samkomulagi ríkisins og kirkjugarðaráðs.

Samkvæmt upplýsingum frá Kirkjugarðasambandinu nam heildarfjárhæð grafar- og umhirðutekna (áður kirkjugarðsgjald) 1.216.376.546 kr. á árinu 2023. Af þessum tekjum renna 8% í Kirkjugarðasjóð. Grafar- og umhirðutekjur þeirra garða sem skilað hafa ársreikningum nema um 95,8% af framangreindri fjárhæð sem gefur vísbendingar um að ársreikningar hafi borist frá þeim görðum þar sem reksturinn er hvað umfangsmestur.  

Nánar má sjá tölfræði varðandi skil síðustu ára á vefsíðu Ríkisendurskoðunar. 

Mynd með frétt