08.04.2025
Ríkisendurskoðun hafnar með öllu tilhæfulausum aðdróttunum Félags atvinnurekenda (FA) um vanhæfi hvað varðar málefni Íslandspósts ohf. og að embættið hafi með einhverjum hætti villt um fyrir Alþingi þegar það birti, í marsmánuði 2024, niðurstöður frumathugunar á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu nr. 98/2019.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins þann 7. apríl 2025 hefur Félag atvinnurekenda nýverið sent erindi til innviðaráðuneytisins þar sem þessum staðhæfingum er haldið fram. Félagið hefur ekki sent Ríkisendurskoðun afrit af bréfinu og á engum tímapunkti verið í samskiptum við embættið vegna þessara aðdróttana. Er hér um að ræða endurtekið efni af hálfu félagsins eftir birtingu frumathugunarinnar án þess að það hafi með nokkrum hætti leitast við að rökstyðja endurteknar dylgjur sínar eða afla skýringa sem varða hlutverk eða stjórnsýslu Ríkisendurskoðunar.
Niðurstöður frumathugunar Ríkisendurskoðunar á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu nr. 98/2019 eru skýrar og standa óhaggaðar. Eins og fram kemur í niðurstöðum frumathugunarinnar lutu margar þær spurningar sem fram komu í úttektarbeiðni Alþingis ekki að lögbundnu hlutverki og verksviði Ríkisendurskoðunar. Það er t.d. ekki hlutverk embættisins að túlka og skýra lög. Jafnframt lutu margar spurningar að málum sem þegar höfðu fengið úrlausn hjá tilskildum eftirlitsaðilum en Ríkisendurskoðun endurskoðar ekki þær ákvarðanir. Engu að síður leitaðist Ríkisendurskoðun við að svara spurningum Alþingis alfarið í samræmi við fyrirliggjandi staðreyndir.
Það er alvarlegt að saka ríkisendurskoðanda um að villa um fyrir Alþingi, en hann er trúnaðarmaður þess að lögum og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Samkvæmt lögum er ríkisendurskoðandi endurskoðandi Íslandspósts ohf. Athugun og endurskoðun á réttleika rekstrarupplýsinga er lögbundið hlutverk embættisins og skapar því ekki vanhæfi í störfum sínum. Eins og dæmin sanna geta vissulega fylgt opinberum rekstri álitamál sem takast á við hinar ýmsu skoðanir og viðskiptalegu hagsmuni á markaði. Við störf Ríkisendurskoðunar er horft til þess að gagnrýni beri mestan árangur ef hún er málefnaleg og vel rökstudd.