Landspítali mönnun og flæði sjúklinga

Skýrsla til Alþingis

02.07.2025

Landspítali hefur ekki verið mannaður heilbrigðisstarfsfólki í samræmi við gerðar áætlanir um starfsemina á undanförnum árum. Þjónustu spítalans er haldið uppi af breytilegri yfirvinnu heilbrigðisstarfsfólks og framlagi ófaglærðra en sérhæfðra starfsmanna. Miðað við rekstraráætlun ársins 2024 voru tæplega 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, 14 stöðugildi ljósmæðra, 30 stöðugildi lækna og 379 stöðugildi sjúkraliða ómönnuð. Að mati Ríkis­endurskoðunar hefur úrræðaleysi og kerfisleg lausatök einkennt viðbrögð heilbrigðisyfirvalda við þeim mönnunar- og flæðisvanda sem birtist í starfseminni.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Landspítali – Mönnun og flæði, sem kynnt var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag.

Í úttektinni kemur fram að rúmnýtingarhlutfall var að meðaltali yfir 100% á þremur þjónustusviðum spítalans árið 2024. Á síðari hluta ársins var spítalinn að jafnaði rekinn á hæsta innlagnarstigi sem stjórnendur lýsa sem ofurálagi sem ekki er gert ráð fyrir að skapist nema í undantekningartilfellum. Ein af alvarlegustu birtingarmyndum þessa álags er hversu lengi sjúklingar sem leita til bráðamóttökunnar þurfa að bíða innlagnar. Meðallengd slíkrar komu var rúmur sólarhringur árið 2024.

Eitt af því sem skýrir hátt innlagnarstig spítalans er hversu mörgum sjúklingum spítalinn veitir þjónustu sem væri betur borgið á hjúkrunarheimilum.  Misbrestur er á flæði sjúklinga innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem rétt þjónusta er ekki veitt á réttum stað. Frá árinu 2021 hafa að meðaltali 77 sjúklingar með færni- og heilsumat legið inni á Landspítala á hverjum tíma. Í upphafi júní 2025 voru þeir 89. Áform stjórnvalda um uppbyggingu hjúkrunarrýma hafa engan veginn gengið eftir. Í árslok 2024 var uppsöfnuð fjárheimild til uppbyggingar rúmir 12 ma. kr.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar

Mynd með frétt