Nýtt innra skipulag Ríkisendurskoðunar

Almennt

01.10.2025

Innra skipulagi Ríkisendurskoðunar hefur verið breytt og tekur nýtt skipurit gildi frá og með deginum í dag, 1. október 2025.

Ríkisendurskoðun starfar sem ein heild undir stjórn ríkisendurskoðanda. Fagleg starfsemi embættisins fer fram á tveimur sviðum: fjárhagsendurskoðunarsviði og stjórnsýslu- og lögfræðisviði. Fyrrnefnda sviðið annast fjárhagsendur­skoðun samkvæmt 5. gr. laga nr. 46/2016 og eftirlit með tekjum ríkisins samkvæmt 4. gr. sömu laga. Síðarnefnda sviðið annast stjórnsýslu­endurskoðun samkvæmt 6. gr. laga nr. 46/2016, eftirlit með fjármálum stjórnmálastarfsemi samkvæmt lögum nr. 162/2006 og eftirlit með ársreikningum kirkjugarða samkvæmt lögum nr. 36/1993.

Yfir hvoru fagsviði er sviðsstjóri og undir honum eru sérfræðingar og, eftir atvikum, einn eða fleiri verkefnastjórar. Fagsviðin starfa almennt í teymum og eiga náið samstarf í ýmsum málefnum, bæði til lengri og skemmri tíma. Nokkur teymi starfa þvert á sviðin, s.s. teymi sem annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og laga um opinber fjármál og teymi sem sinnir málefnum tengdum innra eftirliti og innri endurskoðun hjá ríkisaðilum. 

Stoðsvið sinnir ýmsum miðlægum verkefnum og stoðþjónustu, s.s. fjármálum og almennum rekstri embættisins, tölvu- og öryggismálum, skjalavörslu og umsjón með fasteignum embættisins. Þá sinnir skrifstofa ríkisendurskoðanda einnig miðlægum verkefnum, s.s. mannauðsmálum, samskipta- og upplýsingamálum og alþjóðlegri samvinnu.

Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis og er trúnaðarmaður þess. Hann er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum. Skrifstofa ríkisendurskoðanda nefnist Ríkisendurskoðun. 

Mynd með frétt