08.12.2025
Innviðaráðuneyti og Vegagerðin hafa komið til móts við tvær af þremur ábendingum sem settar voru fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmda- og rekstrarkostnað vegna Landeyjahafnar.
Í skýrslunni Landeyjahöfn. Framkvæmda- og rekstrarkostnaður, sem birt var árið 2022, setti Ríkisendurskoðun fram þrjár tillögur til úrbóta, eina á ábyrgðarsviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis (nú innviðaráðuneyti) og tvær á ábyrgðarsviði Vegagerðarinnar. Í fyrsta lagi yrði að færa kostnað við viðhaldsdýpkun sem rekstrarkostnað Landeyjahafnar. Í öðru lagi þyrfti að ráðast í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum á höfninni og í þriðja lagi hefði þurft að vanda betur undirbúning og kaup á botndælubúnaði árið 2020.
Í nýrri eftirfylgniskýrslu kemur fram að nú, þremur árum síðar, hafa innviðaráðuneyti og Vegagerðin komið til móts við tvær af þremur ábendingum Ríkisendurskoðunar. Vegagerðin færir nú kostnað vegna viðhaldsdýpkunar Landeyjahafnar sem rekstrarkostnað. Einnig hefur stofnunin fallist á að mikilvægt sé að vanda til undirbúnings verkefna á borð við fyrrnefnd innkaup á botndælubúnaði.
Hvað varðar viðamestu ábendingu Ríkisendurskoðunar, um að ráðast þyrfti í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum á Landeyjahöfn, telur embættið að ekki hafi verið komið til móts við hana að fullu. Innviðaráðuneytið batt vonir við að óháð úttekt sem Vegagerðin lét vinna myndi leiða í ljós hvaða leiðir væru færar til að minnka árlega dýpkunarþörf, bæta dýpkunaraðferðir og meta hvort mannvirki við höfnina gætu bætt rekstrargrundvöll hennar. Úttektin stóð hins vegar ekki undir væntingum Vegagerðarinnar og um mitt ár 2024 var farið af stað með nýtt rannsóknarverkefni. Reiknað er með að endanlegar niðurstöður þess liggi fyrir næsta vor. Í kjölfarið hefst vinna við umhverfismat og hönnun. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að sú vinna taki tvö ár. Ljóst er því að kostnaður vegna viðhaldsdýpkunar Landeyjahafnar verður að óbreyttu umtalsverður næstu árin.
|
Tillaga til úrbóta |
Ábyrgð |
|
Færa ber kostnað við viðhaldsdýpkun sem rekstrarkostnað Landeyjahafnar |
Vegagerðin |
|
Ráðast þarf í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum |
Innviðaráðuneyti |
|
Vanda hefði þurft betur undirbúning og kaup á botndælubúnaði |
Vegagerðin |