Innheimta dómsekta

16.01.2023

Í byrjun árs 2022 ákvað Ríkisendurskoðun, á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, að hefja að eigin frumkvæði stjórnsýsluúttekt á stöðu innheimtu dómsekta. Meginástæður voru þær að árið 2009 gaf stofnunin út skýrslu um sama efni og var henni fylgt eftir árin 2012 og 2015 með eftirfylgniskýrslum. Þar var bent á lágt innheimtuhlutfall dómsekta og athygli vakin á því að hlutfallið lækkaði eftir því sem sektir urðu hærri. Lagðar voru fram tillögur til úrbóta sem bæta áttu innheimtuhlutfall dómsekta en frá þeim tíma virðast teljandi breytingar ekki hafa orðið á fyrirkomulaginu. 

Í stað víðtækrar stjórnsýsluúttektar, líkt og þeirri sem Ríkisendurskoðun vann árið 2009, var ákveðið að líta til þróunar mála frá árinu 2014. Ákveðið var að skoða að þessu sinni eingöngu dómsektir og núverandi stöðu á innheimtu þeirra.

Innheimta dómsekta (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

  1. Dómsmálaráðuneyti þarf að bregðast við lágu innheimtuhlut-falli dómsekta
    Brýnt er að skýrsla starfshóps um lagalegar umbætur sem miða að bættu innheimtuhlutfalli sekta og sakarkostnaðar fái efnislega meðferð hjá stjórnvöldum. Ríkisendurskoðun telur tillögur hópsins fela í sér mikla hagsmuni fyrir réttarvörslukerfið og ríkissjóð og því mikilvægt að ráðuneytið taki afstöðu til þeirra. 
     
  2. Meta þarf hvort skilgreina eigi samfélagsþjónustu sem refsingu í stað fullnustuúrræðis
    Ríkisendurskoðun telur umhugsunarvert að ákvörðunarvald um afplánun vararefsinga sekta með samfélagsþjónustu sé tekin af Fangelsismálastofnun. Það er hlutverk dómstóla að skera úr um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við brotum og því sérkennilegt að framkvæmdarvaldið taki ákvörðun um eðli vararefsinga.

    Ríkisendurskoðun beinir því til dómsmálaráðuneytis að skoða kosti þess og galla að skilgreina samfélagsþjónustu sem refsingu í almennum hegningarlögum í stað þess að samfélagsþjónusta sé skilgreind sem fullnustuúrræði í lögum um fullnustu refsinga. Með slíkri breytingu væri dómstólum fengið vald til að ákveða hvort sektarþolar skuli afplána vararefsingu með fangelsisvist eða samfélagsþjónustu. 
     
  3. Bæta þarf nýtingu fangelsisrýma
    Með hliðsjón af fjárfestingu stjórnvalda til uppbyggingar fangelsa í landinu verður það að teljast sóun ef ekki er hægt að tryggja hámarksafköst fullnustukerfisins vegna annarra þátta. Of lítið framboð er af fangelsisrýmum og dregur það m.a. úr varnaðaráhrifum refsinga og eykur líkur á fyrningu. Dómsmálaráðuneyti og Fangelsismálastofnun verða að bregðast við þessu og hækka nýtingarhlutfall fangelsisrýma upp að öryggismörkum. 
     

Innheimtuhlutfall dómsekta hefur um árabil verið mun lægra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Frá árinu 2009 hefur Ríkisendurskoðun ítrekað sett fram ábendingar sem miða að hækkun innheimtuhlutfalls. Við meðferð Alþingis á frumvarpi um ný fullnustulög nr. 15/2016 var tekið undir niðurstöðu og sjónarmið Ríkisendurskoðunar og árangur innheimtu sekta- og sakarkostnaðar metinn afleitur. Ekki reyndist þó vilji til að innleiða í lög aðgerð eins og launaafdrátt vegna sektargreiðslna eða breyta fyrirkomulagi ólaunaðrar samfélagsþjónustu sem hefur verið algengasta fullnustuúrræði vararefsinga. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögunum var settur á fót ráðherraskipaður starfshópur sem skilaði í lok árs 2018 tillögum sem miða áttu að bættu innheimtuhlutfalli. Samhliða skilaði hópurinn fullmótuðu frumvarpi til breytinga á lögum um fullnustu refsinga, lögum um meðferð sakamála og almennum hegningarlögum. 

Dómsmálaráðuneyti hefur ekki brugðist við tillögum starfshópsins með formlegum hætti og hvorki unnið með né tekið markvissa afstöðu til skýrslu hans. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra hefur í tvígang, árið 2020 og 2022, skorað á dómsmálaráðherra að kynna sér efni skýrslunnar. Ríkisendurskoðun lýsir furðu yfir aðgerðaleysi ráðuneytisins og minnir á að skipan og hlutverk starfshópsins var fest í lög nr. 15/2016, í sérstöku bráðabirgðaákvæði. Beinir Ríkisendurskoðun því til ráðuneytisins að taka efnislega afstöðu til skýrslu starfshópsins enda eru tillögur hennar að mati Ríkisendurskoðunar til þess fallnar að bæta innheimtuhlutfall.
Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom í ljós að af álögðum dómsektum á tímabilinu 2014–18 greiddust 2,2% af sektum sem nema 10 m.kr. eða hærri fjárhæð. Í 41% tilvika voru dómar fullnustaðir með beitingu vararefsingar, þar af í 38,7% tilvika með ólaunaðri samfélags-þjónustu og í 2,3% tilvika með fangelsisvist. Taka ber fram að 49,2% sekta fyrir sama tímabil eru enn í virkri innheimtu en afskriftarhlutfall við árslok 2021 var 1,2%. 

Þegar innheimtuhlutföllin eru borin saman við fyrri úttektir Ríkisendurskoðunar er ljóst að lítil breyting hefur orðið. Þar að auki hefur verðlagsþróun verið með þeim hætti að raunvirði er talsvert lægra nú en það var árið 2009 og samanburðarhæfni umræddra fjárhæða því takmörkuð. Bendir það til þess að innheimta dómsekta hafi í því samhengi versnað frá því fyrri úttektir Ríkisendurskoðunar áttu sér stað. Því er ljóst að innheimtuhlutfall hefur haldist afleitt sem m.a. leiðir til þess að fyrning sektardóma og þar með afskriftir þeirra eru enn verulegar. 

Stór hluti þeirra dómsekta sem kveða á um hærri fjárhæðir eru vegna skattalagabrota. Athygli vekur að þrátt fyrir að fram komi í 262. gr. almennra hegningarlaga að við skattalagabrotum sem teljast meiriháttar skuli dómþolar sæta fangelsi allt að sex árum, þá heyrir til undantekninga að óskilorðsbundin fangelsisvist sé dæmd. Dómsektir hafa hins vegar farið hækkandi síðan refsilágmark var sett með lögum nr. 42/1995. Velta má því upp hvort umrætt refsilágmark hafi náð tilgangi sínum og hvort núgildandi refsiákvæði skattalaga hafi nægileg varnaðaráhrif þegar raunin er sú að afar lágt hlutfall þeirra sekta innheimtist. 

Þótt samfélagsþjónusta kunni í mörgum tilvikum að vera viðeigandi fullnustuúrræði ber að varast að beita henni í of miklum mæli. Slíkt getur að mati Ríkisendurskoðunar dregið úr vægi refsinga og fælingarmætti þeirra. Ein af þeim tillögum sem ráðherraskipaður starfshópur lagði fram í skýrslu árið 2018 var ætlað að bregðast við þessu og kvað á um að binda fullnustu vararefsinga með samfélagsþjónustu við ákveðna hámarksfjárhæð dómsekta. Er það tillaga sem Ríkisendurskoðun telur vert að skoða, líkt og aðrar tillögur sem fram komu í þeirri skýrslu. 

Ríkisendurskoðun beinir því jafnframt til dómsmálaráðuneytis að skoða kosti og galla þess að endurskilgreina samfélagsþjónustu sem refsingu í almennum hegningarlögum í stað fullnustuúrræðis í lögum um fullnustu refsinga. Með slíkri breytingu væri dómstólum fengið vald til að ákveða hvort sektarþolar skuli afplána vararefsingu með fangelsisvist eða samfélagsþjónustu. Afplánun með samfélagsþjónustu er talsvert vægara fullnustuúrræði en fangelsisvist og því er framkvæmdarvaldið oft á tíðum í reynd að milda refsingar sem dómstólar hafa dæmt. Slíkt leiðir af sér að viðurlagakerfið reynist ekki nægilega gagnsætt og fyrirsjáanlegt. 

Fyrningar og afskriftir dómsekta eru verulegar en yfir tímabilið 2014–21 hafa samtals 1.341 m.kr. verið afskrifaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun og IMST orsakast fyrningar sekta af samspili margra þátta, þ.e. skömmum og órjúfanlegum fyrningarfrestum, skorti á innheimtuúrræðum, efnaleysi sektarþola og því þegar ekki næst í þá, t.d. vegna andláts, flutnings af landi brott eða þegar þeir eru óstaðsettir í hús. Þá veldur skortur á fangelsisrýmum því að forgangsraða þarf í afplánun fangelsa og eru ofbeldis- og kynferðisbrot þar í forgangi. Þetta þýðir að sæki dómþoli sem afplána þarf vararefsingu ekki um afplánun með ólaunaðri samfélagsþjónustu eru yfirgnæfandi líkur á því að dómur yfir viðkomandi fyrnist án fullnustu hans. 

Af þeim 177 fangelsisrýmum sem Fangelsismálastofnun hafði yfir að ráða árið 2021 gat stofnunin einungis starfrækt 135 vegna fjárskorts. Er nýtingarhlutfall fangelsisrýma hér á landi því langt fyrir neðan öryggisviðmið þrátt fyrir að boðunarlistar séu langir og fjöldi dóma fyrnist á ári hverju. Að mati Ríkisendurskoðunar er það verulegt áhyggjuefni að Fangelsismálastofnun nái ekki að uppfylla lagalegt hlutverk sitt sem skyldi í þessu tilliti. 

Árið 2009 benti Ríkisendurskoðun á mikilvægi þess að upplýsingakerfi aðila réttarvörslukerfisins yrðu samtengd til að tryggja yfirsýn viðkomandi stofnana og fyrirbyggja margskráningu sömu upplýsinga. Við gagnaöflun í tengslum við þessa stjórnsýsluúttekt vakti það athygli að umrædd samtenging hefur ekki átt sér stað þrátt fyrir fullyrðingar um að sú vinna væri hafin í viðbrögðum við ítrekaðri eftirfylgni Ríkisendurskoðunar árið 2015. Sem dæmi um skort á yfirsýn virðist IMST ekki hafa yfir að ráða aðgengilegum talnagögnum um innheimtu dómsekta og þurfti að kalla eftir þeim upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins. Þá kom í ljós að Fangelsismálastofnun hefur heldur ekki aðgang að rauntölum um stöðu innheimtu og á móti hefur IMST ekki aðgang og þar með yfirsýn yfir stöðu fullnustu vararefsinga. Aðspurt svaraði dómsmálaráðuneytið því til að ráðuneytið ræki verkefni um stafræna réttarvörslugátt og að góður gangur væri í verkefninu. 

Að mati Ríkisendurskoðunar myndi samtenging upplýsingakerfa gefa betri yfirsýn um stöðu á fullnustu dómsekta og auka skilvirkni og árangur í málaflokknum. Með slíkri innleiðingu gæfist ráðuneyti og stofnunum betri kostur á að meta árangur af innheimtu og þar með bregðast við með viðeigandi hætti. Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins, sem heldur utan um upplýsingar um innheimtu dómsekta, er stefnt að því að taka nýtt stafrænt vöruhús í notkun árið 2023. Því er ætlað að bæta aðgengi aðila í réttarvörslu-kerfinu að umræddum upplýsingum.
 

Lykiltölur

Uppgjör dómsekta yfir 8 m.kr. tímabilið 2000-14 (hlutfall)
Fullnusta sem hlutfall af heildarfjárhæð sekta yfir 10 m.kr. álögðum á 2014-18
Nýting fangelsisrýma