06.02.2023
Í febrúar 2022 óskaði matvælaráðuneyti eftir að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á stjórnsýslu fiskeldis. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu höfðu ýmis atriði fiskeldislöggjafarinnar reynst erfið í framkvæmd og brotalamir komið fram við framkvæmd hennar. Ráðuneytið hafði unnið að sjálfstæðri greiningu á regluverki fiskeldis en taldi mikilvægt að stjórnsýsla þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, yrði skoðuð sérstaklega.
Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt við bæði samfélag og umhverfi var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á. Þær breytingar sem gerðar voru á lögum um fiskeldi árin 2014 og 2019 hafa að takmörkuðu leyti náð markmiðum sínum. Hvorki hefur skapast aukin sátt um greinina né hafa eldissvæði eða heimildir til að nýta þann lífmassa sem talið er óhætt að ala á tilteknum hafsvæðum verið úthlutað með útboði af hálfu matvælaráðherra. Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom raunar í ljós að hvorki hagsmunaaðilar, viðkomandi ráðuneyti né þær stofnanir sem koma að stjórnsýslu sjókvíaeldis eru fyllilega sátt við stöðu mála og þann ramma sem stjórnsýslu og skipulagi sjókvíaeldis hefur verið markaður.
Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita.
Leyfisveitingar og umhverfismat
Til að starfrækja fiskeldisstöðvar í sjó þarf bæði starfsleyfi frá Umhverfisstofnun sem byggir á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun sem byggir á lögum um fiskeldi. Að mati rekstraraðila hefur leyfisveitingaferlið reynst flókið og tímafrekt og kallað hefur verið eftir einföldun og aukinni skilvirkni. Lagabreytingar sem gerðar voru árið 2014 áttu að hafa í för með sér einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu í kringum leyfisveitingar. Lítið virðist hafa breyst með tilkomu þeirra. Þó hefur samvinna í leyfisveitingaferlinu aukist og leyfin eru nú unnin samhliða, auglýst á sama tíma og afhent samtímis.
Áður en kemur að leyfisveitingu vegna sjókvíaeldis þar sem hámarkslífmassi er 3.000 tonn eða meiri þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum. Bæði Umhverfisstofnun og Matvælastofnun þurfa að taka rökstudda afstöðu til niðurstöðu matsins við leyfisgerðina og umhverfismatsferli þarf að vera lokið áður en kemur til auglýsingar og útgáfu starfs- og rekstrarleyfa. Ferli mats á umhverfisáhrifum er ekki síður flókið og tímafrekt að mati rekstraraðila og gagnrýnt hefur verið að það taki of langan tíma. Hins vegar hefur Skipulagsstofnun bent á að gæði mats á umhverfisáhrifum getur skipt sköpum þegar kemur að úrskurði um lögmæti þess og þar með lögmæti þeirra leyfa sem byggja á því. Þá hefur að sögn Skipulagsstofnunar borið á því að undirbúningur matsins hafi ekki verið nægilegur af hálfu rekstraraðila áður en því er skilað inn til ákvörðunar og því þurfi í slíkum tilvikum að kalla eftir gögnum og umsögnum sem nauðsynlegar eru til að matið teljist lögmætt.
Talsverð skörun er á milli krafna fyrir starfsleyfi og rekstrarleyfi en athygli vekur að formlegt samstarf ráðuneyta umhverfis og matvæla er nánast ekkert þegar kemur að fiskeldi. Þannig hafa verið settar reglur um rekstrarleyfi sem skarast á við ákvæði um starfsleyfi og öfugt. Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að bæta úr þessu og koma á ítarlegra samráði. Ekki er óeðlilegt að tvö stjórnvöld komi að leyfisveitingu til reksturs fiskeldis enda um flókna og mengandi starfsemi að ræða. Hins vegar mætti skoða hvort hægt væri að samræma ákvæði um starfs- og rekstrarleyfi undir ein lög um fiskeldi, útfært þannig að núverandi kröfur og reglur haldi gildi sínu. Þá þarf að fara yfir valdmörk stofnana þegar kemur að þeim ákvæðum sem sett eru í leyfin. Einnig er ástæða til að skoða hvort rétt sé að færa alla leyfisveitingu í fiskeldi til eins stjórnvalds eða mynda öflug þverstofnanaleg teymi um leyfisveitingarnar. Æskilegt væri að sú samvinna yrði lögbundin eða formfest með öðrum hætti. Áríðandi er að sú sérþekking sem byggst hefur upp innan einstakra stofnana fái áfram að njóta sín.
Kapphlaup um eldissvæði
Í lögum um fiskeldi frá 2008 var kveðið á um að ráðherra skyldi ákveða skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins ef vistfræðileg eða hagræn rök mæltu með því, að fengnum umsögnum fag- og hagsmunaaðila. Ráðherra nýtti ekki þessa heimild og rekstraraðilar gátu því hafið undirbúning fyrir sjókvíaeldi hvar sem er fyrir utan skilgreind friðunarsvæði, sbr. auglýsingu nr. 460/2004, með því að hefja matsferli í samræmi við þágildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó yrði ávallt að taka tillit til viðmiða um afmörkun eldissvæða og lágmarksfjarlægða milli sjókvíaeldisstöðva í þágildandi reglugerð um fiskeldi.
Þessi lagarammi bauð í raun upp á kapphlaup um eldissvæði sem hefur m.a. leitt af sér ágreining milli umsækjenda, ósamræmi við aðra nýtingu á viðkomandi svæðum og unnið gegn markmiðum um að heildarnýting svæða væri sem hagkvæmust. Þá voru dæmi um að ófullkomnar matstillögur og leyfisumsóknir væru sendar inn til meðferðar í stjórnsýslunni með það að markmiði að vera á undan næsta rekstraraðila.
Við lagabreytingar árið 2019 var innleitt nýtt kerfi þar sem ráðherra tekur ákvörðun um hvaða firði eða hafsvæði skal meta til burðarþols og hvenær. Þegar burðarþol er metið tekur Hafrannsóknastofnun jafnframt ákvörðun um hvernig skipta eigi viðkomandi hafsvæði í eldissvæði sem eru síðan auglýst og boðin út. Þetta kerfi er þó ekki enn komið til framkvæmda og óljóst er hvernig því verður háttað í reynd. Ekkert þeirra leyfa sem gefin hafa verið út til starfsemi sjókvíaeldis í dag hefur fengið umfjöllun á hverju þeirra stiga sem núgildandi ferill gerir ráð fyrir samkvæmt lögum.
Þegar umræddar breytingar voru lögfestar með breytingu á fiskeldislöggjöfinni, sbr. lög 101/2019, var grafið undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda þegar birtingu og þar með gildistöku laganna var slegið á frest af hálfu starfsmanns þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Ásýndin var sú að tiltekin fyrirtæki hefðu fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna og þar með tryggt að umsóknir þeirra um rekstrarleyfi þyrftu ekki að sæta málsmeðferð í samræmi við ný ákvæði laganna.
Ríkisendurskoðun bendir á að mikilvægt sé að settar verði skýrar reglur um útfærslu og fyrirkomulag á skiptingu eldissvæða og úthlutun heimilda til eldis í sjó. Hafrannsóknastofnun hefur bent á að stofnunin sé í raun vanbúin til þeirrar stjórnsýslulegu framkvæmdar sem krafist er af henni í tengslum við skilgreiningu eldissvæða. Stofnunin sé fyrst og fremst ráðgefandi aðili sem vinnur m.a. að rannsóknum á burðarþoli og vöktun svæða. Að mati Ríkisendurskoðunar er rétt að matvælaráðuneyti taki slíkar athugasemdir til skoðunar í tengslum við stefnumótun sína um stjórnsýslu fiskeldis.
Skýra þarf reglur um burðarþolsmat
Burðarþolsmat segir til um hversu mikið aukið lífrænt álag tiltekinn fjörður eða afmarkað hafsvæði þolir án þess að óæskileg áhrif á lífríki komi fram. Samkvæmt breytingu á lögum um fiskeldi frá árinu 2014 hefur Hafrannsóknastofnun það hlutverk að framkvæma slíkt mat sem og nauðsynlega vöktun til að sannreyna matið. Ekki eru nein ákvæði til staðar um hvort eða hvenær burðarþolsmat skuli endurskoðað en ljóst er að niðurstöður vöktunar gætu gefið tilefni til þess. Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að setja slíkar reglur og hvaða áhrif endurskoðun hafi á fyrirliggjandi leyfi og til framtíðar.
Um leið og ákvæði um burðarþolsmat var innleitt var stofnaður Umhverfissjóður sjókvíaeldis sem m.a. átti að greiða kostnað vegna burðarþolsrannsókna og vöktunar. Athygli vekur að Hafrannsóknastofnun hefur ekki fengið fasta fjármögnun til burðarþolsrannsókna og vöktunar af fjárlögum heldur hefur stofnunin þurft að sækja um styrki fyrir þeim í Umhverfissjóðinn. Þrátt fyrir upphaflegan tilgang sjóðsins er hann samkeppnissjóður og stofnunin þarf því að keppa við aðra aðila um fjármagn. Komið hefur fyrir að sjóðurinn hafi hafnað umsókn Hafrannsóknastofnunar um styrk vegna gerðar burðarþolsmats.
Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnun hafi fasta fjármögnun vegna burðarþolsrannsókna og vöktunar. Meta þarf hvort hægt sé að endurskoða reglur við úthlutun úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis í þessu samhengi. Horfa þarf til gjaldtöku af sjókvíaeldi með heildstæðum hætti og tryggja að fyrirtæki sem nýta firði eða afmörkuð hafsvæði taki þátt í kostnaði við rannsóknir og vöktun sem nauðsynleg er til að tryggja að eldi sé stundað með sjálfbærum hætti.
Áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess
Fyrsta áhættumat erfðablöndunar sem unnið var af Hafrannsóknastofnun var kynnt árið 2017. Tilgangur þess er að geta spáð fyrir um magn frjórra eldisfiska sem strjúka úr sjókvíum og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna. Frumforsendur matsins er að náttúrulegir laxastofnar skaðist ekki. Áhættumatið var svo endurskoðað árið 2020 en lög segja til um að áhættumatið skuli endurskoðað á þriggja ára fresti.
Forsendur áhættumatsins byggja á niðurstöðum vöktunar og rannsókna auk upplýsinga um strok frá eldisfyrirtækjum. Þá eru mótvægisaðgerðir til að sporna gegn erfðablöndun stór hluti af gerð áhættumats. Við uppfærslu matsins árið 2020 kom fram að Hafrannsóknastofnun taldi nauðsynlegt að eldisfyrirtæki væru með nákvæmari gögn úr framleiðslu sinni aðgengileg í rauntíma. Þannig væru til staðar upplýsingar um fjölda útsettra seiða og fjölda slátraðra fiska úr hverri kví. Einnig gögn um dánartölu á eldistíma og upplýsingar um strokatvik. Þrátt fyrir að þessi upplýsingagjöf þyrfti að vera nákvæmari var engu síður töluverð aukning á lífmassa niðurstaðan í uppfærðu áhættumati.
Stór hluti þeirrar aukningar kom til þar sem Hafrannsóknastofnun ákvað að notast við lífmassa í stað hámarksframleiðslu við útgáfu eins og gert var í fyrsta áhættumatinu. Við þessa breytingu ákvað Hafrannsóknastofnun að nota stuðullinn 0,8:1 sem þýðir um 800 tonn af framleiðslu á móti 1.000 tonnum af lífmassa. Var áhættumatið því uppfært til hækkunar sem þessu nam. Í skýringum Hafrannsóknastofnunar kom fram að við ákvörðun stuðulsins hefði verið horft til reynslu úr sjókvíaeldi hér á landi á síðustu árum. Reyndin er hins vegar sú að samkvæmt reynslu síðustu ára hefði stuðullinn fremur átt að vera nær 1:1. Einnig kom fram við úttekt Ríkisendurskoðunar að stuðullinn væri í reynd kominn frá hagsmunaaðilum úr greininni. Ekki tókst að staðfesta að svo væri en að mati Ríkisendur-skoðunar verður notkun stuðla og reikniregla að byggja á öruggum og staðreyndum upplýsingum úr fiskeldi hér við land. Það að Hafrannsóknastofnun hafi ekki með skýrari hætti getað rökstutt val sitt á ofangreindum stuðli er áhyggjuefni.
Ríkisendurskoðun bendir á að ákvörðun hámarkslífmassa á tilteknum hafsvæðum er ákvörðun um skiptingu verðmæta milli svæða og í sumum tilfellum fyrirtækja. Slík ákvörðun hlýtur að teljast vera stjórnvaldsákvörðun og um leið er Hafrannsóknastofnun sett í þá stöðu að vera orðið stjórnvald þó hlutverk hennar sé fyrst og fremst rannsóknir og ráðgjöf. Mikilvægt er að skapaður sé skýr ferill við skiptingu áhættumats þar sem ákvæðum stjórnsýslulaga er fylgt og að skýr rökstuðningur fylgi.
Ríkisendurskoðun telur enn fremur vert að benda á að óháðir sérfræðingar telji að vöktunar- og mótvægisaðgerðir í tengslum við áhættumat erfðablöndurnar séu takmarkaðar að umfangi. Taka verður slíkar ábendingar alvarlega og efla þarf þennan þátt og tryggja fjármagn. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að horfa til gjaldtöku af fiskeldisfyrirtækjum í þessu sambandi.
Fyrirkomulag endurskoðunar og uppfærslu leyfa
Í lögum um fiskeldi og í 24. grein reglugerðar nr. 540/2020 um sama efni er tiltekið að rekstrarleyfi skulu samrýmast staðfestu áhættumati erfðablöndunar sem og burðarþolsmati og skal Matvælastofnun, ef við á, breyta gildandi rekstrarleyfum, að gefnum hæfilegum fresti til aðlögunar. Það sama á við um starfsleyfi, þ.e. Umhverfisstofnun ber að breyta gildandi starfsleyfum til samræmis við áhættumat og burðarþolsmat, sbr. 6. gr. a og b í lögum um fiskeldi.
Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að fyrirkomulagið um uppfærslu og endurskoðun rekstrar- og starfsleyfa sé tekið til endurskoðunar með það að markmiði að tryggja skýrleika sem og að auðlindum sé ekki úthlutað nema að borgun komi fyrir, samanber vilja löggjafans sem endurspeglast í auglýsingu og útboðum á eldissvæðum. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að mikilvægt sé að skapa samræmi á milli ákvæða um uppfærslu rekstrarleyfa og endurskoðun starfsleyfa.
Efla þarf eftirlit og beita þvingunarúrræðum með markvissum hætti
Lagabreytingar sem gerðar voru árin 2014 og 2019 höfðu hvorki í för með sér betri og skilvirkari ferli leyfisveitinga né eftirlits. Eftirlit með sjókvíaeldi við Íslandsstrendur er of takmarkað og háð aðgengi að búnaði og starfsfólki fiskeldisfyrirtækja. Efla þyrfti eftirlit með sjókvíaeldi til muna, en einnig er þörf á að einfalda og samþætta eftirlitið betur milli Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Mikilvægt er að rukkað sé fyrir eftirlit samkvæmt kostnaði.
Samhæfa þarf betur eftirlit dýralæknis fisksjúkdóma við hið almenna eftirlit Matvælastofnunar t.d. með aukinni áherslu á innra eftirlit fyrirtækja og gera kröfur um að fyrirtækin hafi sjálf í þjónustu sinni dýralækna sem starfi þá undir eftirliti Matvælastofnunar. Mikilvægt er að efla eftirlit með heilbrigði og velferð eldisfiska í samræmi við aukin umsvif greinarinnar.
Ríkisendurskoðun telur vert að benda á að þrátt fyrir ríkuleg þvingunarúrræði hefur Mat-vælastofnun ekki talið þörf á að beita þeim með markvissum hætti þrátt fyrir að alvarleg frávik hafi verið skráð við eftirlit og jafnvel ítrekað. Einnig er að finna dæmi um fiskeldisstöð sem hefur ekki fengið athugasemdir eða viðvörun um afturköllun leyfis þrátt fyrir að starfsemi hafi ekki verið í stöðinni í meira en fimm ár. Í nóvember 2022 lagði Matvælastofnun í fyrsta sinn stjórnvaldssekt á fyrirtæki vegna brota á ákvæðum er varða tilkynningaskyldu um strok úr sjókvíaeldi. Ríkisendurskoðun telur að um jákvætt skref hafi verið að ræða en bendir jafnframt á að til að tryggja skilvirkari og betri framkvæmd laga er mikilvægt að eftirlitsstofnanir beiti þeim úrræðum sem til þarf með markvissum hætti.
Umhverfisstofnun hefur gagnrýnt að stofnunin hefði ekki sömu möguleika til þvingunarúrræða og Matvælastofnun þegar kemur að eftirliti með fiskeldi. Stofnunin fékk auknar heimildir til álagningar stjórnvaldssekta með breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í júní 2022, m.a. vegna ákvæða um hvíld eldissvæða og þegar starfað er umfram mörk starfsleyfis. Ríkisendurskoðun bendir á að bæði Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hafa skráð frávik í eftirliti sínu með sjókvíaeldi vegna þess að svæði eru ekki hvíld í samræmi við leyfi og að lífmassi hefur farið umfram mörk starfs- og rekstrarleyfa.
Ríkisendurskoðun vekur sérstaka athygli á að samkvæmt ákvæðum 21. gr. d. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi hefur Matvælastofnun ekki skýlausa heimild til að leggja á stjórnvaldssektir ef lífmassi reynist meiri en kveðið er á um í rekstrarleyfi viðkomandi aðila. Sektarheimildin á einungis við ef lífmassinn reynist meiri en kveðið er á um í áhættumati erfðablöndunar, burðarþolsmati eða ef hann fer yfir 20 tonn í þeim tilfellum sem starfsemin er einungis skráningarskyld. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að eðlilegt samræmi sé tryggt hvað snýr að heimildum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota á ákvæðum starfs- og rekstrarleyfa og að stofnanirnar beiti ekki þvingunarúrræðum sínum með þeim hætti að til komi tvöföld refsing fyrir sama brot.