06.02.2023
Skýrslan Endurgreiðslukerfi kvikmynda (október 2019) var unnin að frumkvæði Ríkisendurskoðunar eftir ábendingar um hugsanlega misnotkun á kerfinu. Endurgreiðslukerfi kvikmynda hafði verið starfrækt frá árinu 2001 í þeim tilgangi að styrkja innlenda kvikmyndagerð, með því að endurgreiða tiltekið hlutfall framleiðslukostnaðar sem félli til hér á landi, og laða að erlent kvik-myndagerðarfólk. Endurgreiðslukerfinu var upphaflega ætlað að starfa til ársins 2005 en gildistíma laganna hafði í fjórgang verið breytt þegar úttekt Ríkisendurskoðunar var unnin. Sam-kvæmt þágildandi lögum var endurgreiðslukerfinu ætlað að starfa til ársloka 2021. Sjá upphaflegu skýrsluna.
Lagðar voru fram fjórar tillögur til úrbóta í skýrslunni. Þær voru á ábyrgðarsviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis (nú menningar- og viðskiptaráðuneyti) og nefndar um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Þær fjölluðu m.a. um þörf á endurskoðun laga nr. 43/1999, stjórnskipulag endurgreiðslukerfis kvikmynda, eftirlit og endurskoðun kostnaðaryfirlits og loks afmörkun og skilgreiningu endurgreiðsluhæfis verkefna.
Brugðist hefur verið skipulega við öllum fjórum ábendingum Ríkisendurskoðunar með breytingu á lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þá vinnur menningar- og viðskiptaráðuneyti jafnframt að endurskoðun reglugerðar nr. 450/2017 og er búist við að þeirri vinnu ljúki innan fárra mánaða. Að svo búnu telur Ríkisendurskoðun ekki þörf á að bregðast frekar við ábendingum sem fram komu í skýrslu stofnunarinnar frá 2019.