06.02.2023
Í skýrslunni Íslandspóstur ohf. (september 2019) fjallaði Ríkisendurskoðun að beiðni fjárlaganefndar Alþings um tiltekna fjárhagslega þætti í starfsemi Íslandspósts ohf. Óskaði nefndin sérstaklega eftir að kannað yrði hvort aðgreining samkeppnisrekstrar og einkaréttar hafi verið með fullnægjandi hætti, hver rót fjárhagsvanda félagsins sé að mati ríkisendurskoðanda og loks hver sé framtíðarsýn þess. Sjá nánar upphaflega skýrslu.
Skýrslan var unnin að beiðni fjárlaganefndar Alþings um úttekt á tilteknum fjárhagslegum þáttum í starfsemi Íslandspósts ohf. Óskaði nefndin sérstaklega eftir að kannað yrði hvort aðgreining samkeppnisrekstrar og einkaréttar hafi verið með fullnægjandi hætti; hver væri rót fjárhagsvanda félagsins og loks hver sé framtíðarsýn þess. Tilefni beiðninnar má rekja til þess að stjórn Íslandspósts ohf. leitaði um mitt ár 2018 til fjármála- og efnahagaráðuneytis um aðstoð til að mæta fyrirsjáanlegum greiðsluvanda.
Lagðar voru fram fjórar tillögur til úrbóta. Þær voru á ábyrgðarsviði Íslandspósts ohf., fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis (nú innviðaráðuneyti). Þær sneru að því að tryggja þyrfti rekstrargrundvöll Íslandspósts ohf. til lengri tíma, móta sérstaka eigandastefnu fyrir félagið, efla eftirlit og að ráðast í frekari hagræðingaraðgerðir.
Brugðist hefur verið við flestum ábendingum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2019, þó í mismiklum mæli. Íslandspóstur ohf. hefur, með stuðningi fjármála- og efnahagsráðuneytis, gripið til yfirgripsmikilla hagræðingaraðgerða sem hafa skilað mun betri rekstrarniðurstöðu en enn er talsverð óvissa og áhætta í rekstri félagsins, einkum vegna fækkunar bréfa. Í stað þjónustusamnings var Íslandpóstur ohf. útnefndur alþjónustuaðili póstþjónustu á Íslandi (2021–30) sem tryggir réttindi og skyldur félagsins. Fjármála- og efnahagsráðuneyti sér ekki ástæðu til þess að setja félaginu sérstaka eigandastefnu og vísar til almennrar eigandastefnu ríkisins fyrir félög í eigu ríkisins frá árinu 2021. Ekki er ástæða til þess að ítreka frekar ábendingar Ríkisendurskoðunar frá árinu 2019.