06.02.2023
Skýrsla Ríkisendurskoðunar, Vatnajökulsþjóðgarður (október 2019) var unnin að beiðni þjóðgarðsins sem óskaði eftir aðstoð í ljósi niðurstaðna úttektarskýrslu Capacent um starfsemi hans. Niðurstöður lágu fyrir í maí 2018 og fjölluðu m.a. um að verulegar brotalamir hefðu verið í stjórnun og rekstrareftirliti þjóðgarðsins og mikill skortur á formfestu. Sjá nánar upphaflega skýrslu.
Úttektin var unnin að beiðni þjóðgarðsins í kjölfar skýrslu Capacent um starfsemina sem leitt hafði í ljós ýmsar brotalamir. Markmið úttektar Ríkisendurskoðunar var að kanna hvort starfsemi þjóðgarðsins væri í samræmi við fjárheimildir, löggjöf og góða og viðurkennda starfshætti. Einnig að fjalla um ráðstafanir sem þjóðgarðurinn og ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála höfðu gripið til varðandi rekstur og stjórn hans.
Í skýrslunni setti Ríkisendurskoðun fram fjórar tillögur til úrbóta. Þrjár þeirra fjölluðu um stjórnun og eftirlit með starfseminni og ein um tekjustofna hennar.
Vatnajökulsþjóðgarður og eftir atvikum ráðuneytið hafa brugðist við þeim tillögum til úrbóta sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Úrbótum hefur verið hrint í framkvæmd eða eru í skilgreindum farvegi byggt á stefnu, markmiðum og skilgreindum áföngum.
Starfsemi þjóðgarðsins hefur verið endurskipulögð með ýmsum hætti, s.s. ýmsar aðgerðir til að efla miðlæga stjórnsýslu, m.a. með breytingu á skipulagi, ráðningum, virkara eftirliti með rekstri og framþróun í starfsmannamálum. Stjórnunar- og verndaráætlun er í stöðugri uppfærslu, atvinnustefna hefur verið samþykkt og reglugerð um þjóðgarðinn endurútgefin. Auk þessa eru önnur skipulagsskjöl og áætlanir ýmist uppfærðar eða í mótun. Að mati ráðuneytis var ekki talið nauðsynlegt að setja reglugerð til að skýra verkefni og ábyrgð innan stjórnkerfis þjóðgarðsins vegna framangreindrar þróunar.
Verkefni um gjaldtöku og þar með traustari tekjustofna er í þróun. Stoðir fyrir ákvarðanatöku hvað það varðar hafa verið styrktar m.a. með reglugerð og atvinnustefnu en eftir er að ljúka stefnumótun þjóðgarðsins þar um. Eins eru til staðar áskoranir á víðari grundvelli um mögulega ákvarðanatöku um samræmingu gjaldtöku á landsvísu.