Eftirfylgni: Sýslumenn, samanburður milli embætta

06.02.2023

Í skýrslunni Sýslumenn. Samanburður milli embætta (mars 2019) gerði Ríkisendurskoðun grein fyrir niðurstöðum úttektar á þeim breytingum á stjórnsýslunni sem átti sér stað með gildistöku laga nr. 50/2014 um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Markmið breytinganna var að efla þjónustu, rekstur og stjórnsýslu sýslumannsembættanna og gera þau að miðstöð stjórnsýslu ríkisins í héraði. Sýslumannsembættum á Íslandi fækkaði úr 24 í níu með þessum lagabreytingum og á sama tíma var löggæsla að fullu aðskilin frá starfsemi þeirra. Sjá nánar upphaflega skýrslu

Sýslumenn, samanburður milli embætta - eftirfylgni (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Um var að ræða úttekt að frumkvæði Ríkisendurskoðunar til að kanna hvernig staðið hafði verið að breytingum á stjórnsýslunni með lögum nr. 50/2014. Með setningu þeirra var sýslumann-embættum fækkað úr 24 í níu og löggæsla að fullu skilin frá starfsemi þeirra. Fjallað var um starfsemi sýslumannsembætta í ljósi hagkvæmni og skilvirkni og með hliðsjón af markmiðum breytinganna sem m.a. sneru að því að efla þjónustu, rekstur og stjórnsýslu embættanna.

Í skýrslunni lagði Ríkisendurskoðun fram fjórar tillögur til úrbóta sem beint var að dómsmálaráðuneyti og sýslumannsembættunum. Þær fjölluðu um skipulag, skilvirkni og hagkvæmni í þjónustu og rekstri, m.a. með aukinni samvinnu embætta. Þessu til stuðnings beindust tillögurnar einnig að þróun upplýsingakerfa, þörf á aukinni rafrænni þjónustu og því að skilgreina þyrfti nánar hlutverk og þjónustustig í samhengi við rétta fjármögnun.

Dómsmálaráðuneyti og sýslumannsembættin hafa brugðist við tillögum Ríkisendurskoðunar. Í þessu felst m.a. samstarf um gerð stefnumótunar í málaflokknum, aukin fjárframlög og meiri samvinna milli embætta ekki síst á vegum Sýslumannaráðs. Frekari áform ráðuneytis um sameiningu sýslumannsembætta hafa ekki náð fram að ganga og í sameiginlegri umsögn sýslu-manna kemur fram að það sé ekki talið tímabært.

Þróun á upplýsingakerfi sýslumanna, Sýslunni, er í skilgreindum farvegi byggt á þarfagreiningu hvað varðar mælingar á málshraða og um forsendur verkbókhalds. Þróunin er studd af ráðuneytinu.

Rafræn stjórnsýsla hefur tekið umtalsverðum framförum með samstarfi sýslumanna, ráðuneytis og Stafræns Íslands og skapað farveg til frekari þróunar. Þetta á við á breiðu sviði, þ.m.t. rafræn erindi og leyfisveitingar, ýmsa sjálfsafgreiðslu og skjöl á sviði þinglýsinga.