14.03.2024
Í lok árs 2023 barst Ríkisendurskoðun beiðni frá Alþingi um úttekt á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu nr. 98/2019. Ríkisendurskoðandi féllst á beiðnina og að leitast yrði við að svara þeim spurningum sem fram voru settar í skýrslubeiðninni.
Framkvæmd og eftirlit með lögum um póstþjónustu nr. 98/2019. (pdf)
Ríkisendurskoðun aflaði upplýsinga frá innviðaráðuneyti, Byggðastofnun, Fjarskiptastofu og Íslandspósti, auk þess sem fundað var með Félagi atvinnurekenda.
Eftir frumathugun Ríkisendurskoðunar var tekin ákvörðun um að leggja ekki í heildstæða úttekt á grundvelli beiðni Alþingis. Kannað var í kjölfarið hvort virðisauki væri í því fólginn að skoða alþjónustu í póstdreifingu með almennum hætti en niðurstaðan var sú að svo væri ekki á þessum tímapunkti. Ríkisendurskoðun tók engu að síður saman svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram í beiðninni og er þau að finna hér á eftir. Margt af því sem spurt var um í beiðninni hefur fengið úrlausn hjá eftirlitsaðilum og er í þeim tilvikum vísað til þeirra ákvarðana.
Ríkisendurskoðun bendir á að hlutverk embættisins er skilgreint í lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Þótt vissulega sé það á hendi embættisins að kanna, við mat á frammistöðu ríkisaðila, hvort starfsemi sé í samræmi við þá löggjöf sem gildir er það ekki hlutverk ríkisendurskoðanda að túlka og skýra lög við vinnslu stjórnsýsluúttekta.