Eftirfylgni: Fall Wow Air hf. - aðkoma Samgöngustofu og Isavia ohf.

14.02.2025

Í samræmi við viðurkennda endurskoðunarstaðla fyrir opinbera aðila fylgir Ríkisendurskoðun eftir niðurstöðum stjórnsýsluúttekta sinna, eftir því sem við á, sbr. 9. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Tilgangur slíkrar eftirfylgni er að kanna hvort og þá hvernig brugðist hefur verið við ábendingum og tillögum Ríkisendurskoðunar og hvort þeir annmarkar sem úttektir hafa leitt í ljós séu enn til staðar.

Eftirfylgni: Fall Wow Air hf. - aðkoma Samgöngustofu og Isavia ohf. (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur Samgöngustofa skýrt og uppfært bæði verklagsreglur og verkferla um eftirlit með fjárhag flugrekanda. Á það jafnt við um verklag þegar grunur er um fjárhagsörðugleika og þegar fjárhagsleg endurskipulagning stendur yfir. Þá er góðs viti að Samgöngustofa hefur leitað til utanaðkomandi sérfræðinga til að tryggja þekkingu og getu til að leggja mat á fjárhag flugrekstraraðila.

Benda verður á að Samgöngustofa dregur í efa hvort rétt sé að beita þeirri heimild að svipta aðila flugrekstrarleyfi séu áhöld um fjárhagslega getu viðkomandi og gefa út tímabundið leyfi meðan fjárhagsleg endurskipulagning stendur yfir. Í ljósi mögulegra neikvæðra áhrifa þess á rekstur viðkomandi verði að beita slíku úrræði af varúð enda hafi stofnunin ætíð heimild til leyfissviptingar telji hún að flugöryggi sé ógnað.

Ríkisendurskoðun telur ekki tilefni til að ítreka tillögur sínar. Embættið brýnir þó fyrir Samgöngustofu og innviðaráðuneyti að komi til þess að reyni á eftirlit stofnunarinnar með fjárhag flugrekanda verði það tekið föstum tökum frá upphafi og að stofnunin beiti lögbundnum heimildum sínum til að tryggja að flugrekandi uppfylli fjárhagsleg skilyrði flugrekstrarleyfis.

Frá því að Ríkisendurskoðun lauk úttekt sinni á aðkomu Isavia og Samgöngustofu að falli Wow air hf. hafa ný lög nr. 80/2022 um loftferðir tekið gildi. Í 198. gr. þeirra er fjallað um stöðvun loftfars vegna ógreiddra gjalda og kyrrsetningu. Þar hafa verið gerðar breytingar á skilyrðum og framkvæmd kyrrsetningar, t.d. með skýrari heimild til stöðvunar loftfars flugrekanda vegna skulda, óháð því hvort þær séu tilkomnar vegna viðkomandi loftfars. Þrátt fyrir það er ekki útséð um hvort einhverjir vankantar séu á ákvæði greinarinnar hvað snýr að forsendum og framkvæmd stöðvunar. Ríkisendurskoðun hvetur innviðaráðuneyti og Samgöngustofu til að meta hvort tilefni sé til endurskoðunar þegar tilhlýðileg reynsla er kominn á framkvæmdina.