17.02.2025
Í samræmi við viðurkennda endurskoðunarstaðla fyrir opinbera aðila fylgir Ríkisendurskoðun eftir niðurstöðum stjórnsýsluúttekta sinna eftir því sem við á, sbr. 9. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.
Eftirfylgni: Þjónusta við fatlað fólk skv. lögum nr. 38/2018 (pdf)
Þótt að einhverju leyti hafi verið komið til móts við þær tillögur sem Ríkisendurskoðun setti fram í skýrslunni Þjónusta við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018. Innleiðing og framkvæmd sveitarfélaga (október 2021) eru margir þeir annmarkar sem bent var á enn fyrir hendi. Mikilvægt er að ráðuneyti félags- og vinnumarkaðsmála haldi áfram vinnu við að koma til leiðar nauðsynlegum úrbótum.
Ríkisendurskoðun benti á mikilvægi þess að tilhlýðilegt leiðbeiningarefni væri tilbúið þegar breytingar eru gerðar á lagaramma þjónustu við fatlað fólk, sbr. 1. tillögu til úrbóta. Engar formlegar breytingar hafa orðið á tilhögun kynningarferla af hálfu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis hvað varðar lagramma málaflokksins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir er þó unnið að því að bæta upplýsingamiðlun til þeirra sem eiga rétt á þjónustu skv. lögum nr. 38/2018. Jafnframt eru fyrir hendi merki þess að breytingar á lagrammanum séu gerðar með rýmri innleiðingartíma og að betur sé gætt að því að skapa ekki óvissu um fjármögnun verkefna.
Í 2. tillögu Ríkisendurskoðunar var kveðið á um að skýra yrði fjármögnun NPA samninga og bæta afgreiðsluferli samninganna af hálfu þáverandi félagsmálaráðuneytis. Núverandi félagsog vinnumarkaðsráðuneyti hefur sýnt viðleitni til að bæta afgreiðsluferil samninga í samræmi við tillögu Ríkisendurskoðunar og upplýsa sveitarfélög um afstöðu sína til samninga. Innleiðingartími samninganna var framlengdur út árið 2024 en eftir það munu umsóknir um fjármögnun NPA samninga verða alfarið afgreiddar af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti hefur hvorki lokið endurskoðun á ákvæðum laga nr. 38/2018 sem lúta að notendastýrðri persónulegri aðstoð né reglugerð um sama efni. Fjöldi NPA samninga er ekki í samræmi við markmið stjórnvalda.
Ríkisendurskoðun taldi mikilvægt að reglur og kynningarefni fyrir notendur þjónustunnar yrði endurskoðað og uppfært, sbr. 3. tillögu embættisins árið 2021. Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar hefur verið unnið að úrbótum að þessu leyti, bæði af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Fyrirhugað er að leiðbeiningar, reglur og samskipti varðandi þjónustu skv. lögum 38/2018 verði sameinaðar á vefnum island.is. Sú vinna mun þó ekki hefjast fyrr en árið 2025.
Að síðustu taldi Ríkisendurskoðun brýnt að ytra og innra eftirlit með þjónustu við fatlað fólk yrði eflt. Þau gögn sem Ríkisendurskoðun hefur aflað benda til að halda verði áfram að bæta innra og ytra eftirlit sveitarfélaga með þjónustunni en þau reiða sig mjög á forystu og samhæfingu af hálfu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála í þessu tilliti. Tilhögun og framkvæmd ytra eftirlits af hálfu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála er enn í mótun, sem og sjálf gæðaviðmið þjónustunnar og árangursmælikvarðar. Ráðherra hefur ekki nýtt heimild til að setja reglugerð um innra eftirlit þeirra sem veita þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 en Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur ýtt þeirri vinnu af stað.