Endurskoðun ríkisreiknings 2024

14.11.2025

Ríkisreikningur vegna ársins 2024 var gefinn út 30. júní 2025, undirritaður af fjármála- og efnahagsráðherra og fjársýslustjóra. Áritun ríkisendurskoðanda er án fyrirvara en með ábendingu um stöðu innleiðingar alþjóðlegra reikningsskila fyrir opinbera aðila (IPSAS).

Endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2024 var kynnt fjárlaganefnd Alþingis þann 13. nóvember 2025.

Endurskoðun ríkisreiknings 2024 (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Vakin er athygli á eftirfarandi ábendingum og athugasemdum til fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjársýslu ríkisins en smávægilegum ábendingum var komið beint á framfæri við stjórnendur einstakra ríkisaðila þegar endurskoðunarvinna fór fram.

1. Innra eftirlit og innri endurskoðun
Skortur á reglugerðum, reglum og leiðbeiningum skapar aukna möguleika til sviksemi og sniðgöngu og ber vott um veikleika í fjármálastjórnun hjá ríkinu. Ríkisendurskoðun áréttar enn mikilvægi þess að innri endurskoðun sé sett á laggirnar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Sjá nánar í kafla 3.

2. Gerð reikningsskila - samstæðureikningur
Ríkisendurskoðun áréttar fyrri ábendingar um brýna nauðsyn þess að innleitt verði samstæðuuppgjörskerfi fyrir gerð samstæðureiknings ríkissjóðs til að lágmarka handvirkar færslur með tilheyrandi villuhættu. Við gerð samstæðu ríkisreiknings er mikilvægt að halda vel utan um einstaka samstæðufærslur, leiðréttingar, breytingar vegna flokkunar liða og áhrif á eigið fé. Ríkisendurskoðun hefur ekki fengið fullnægjandi gögn til stuðnings fjárhæð liðarins „Matsbreyting samstæðu“ í yfirliti um breytingu á eigin fé í ríkisreikningi. Sjá nánar kafla 4.2.

3. Gerð reikningsskila – sérfræðiaðstoð
Ríkisendurskoðun leggur til, líkt og áður, að fjármála- og efnahagsráðuneyti og Fjársýsla ríkisins leiti sér utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar til að bæta verklag, upplýsingagjöf og fylgni við reikningsskilastaðla. Sjá nánar kafla 4.2

4. Óvanalegir atburðir
Ríkisendurskoðun mælir með að útgjöld ríkissjóðs vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og óvanalegra viðlíkra atburða fari í gegnum eitt fjárlaganúmer sem er sérstaklega sett á stofn vegna slíkra atburða. Sjá nánar kafla 4.4.

5. Varanlegir rekstrarfjármunir – eignfærður virðisaukaskattur
Í skýringu 1 um grundvöll ríkisreiknings kemur fram að viðskipti milli ríkisaðila og stöður milli þeirra eru jafnaðar út við gerð ríkisreiknings að öðru leyti en virðisaukaskattur sem fylgir fjárfestingum er ekki færður út þar sem gögn þar um eru ekki áreiðanleg. Ríkisendurskoðun bendir á að tekjur af virðisaukaskatti eru þar af leiðandi ofmetnar og eignir að sama skapi sem veldur skekkju í ríkisreikningi. Sjá nánar kafla 4.7.

6. Varanlegir rekstrarfjármunir - vegakerfi
Ríkisendurskoðun gerir alvarlega athugasemd við að engin sundurliðun á bókfærðu virði vega og veghluta sé til staðar. Enn fremur er gerð athugasemd við forsendur við útreikning afskrifta sem eru ekki í tengslum við bókfært virði eignanna. Sjá nánar kafla 4.7.

7. Varanlegir rekstrarfjármunir – eignir undir fjárlagaliðnum „Mannvirki ríkissjóðs“
Ríkisendurskoðun bendir á nauðsyn þess og mikilvægi að eignir fjárlagaliðarins „Mannvirki ríkissjóðs“ séu færðar í eignaskrá og umsýsla formfest og sinnt reglulega í ljósi umfangs. Sjá nánar kafla 4.7.

8. Varanlegir rekstrarfjármunir – verk í vinnslu
Talsvert er af nýjum fasteignum sem nú þegar hafa verið teknar í notkun og hefðu átt að færast á eignaskrá til fyrningar yfir áætlaðan líftíma þeirra. Ríkisendurskoðun bendir á að ábyrgðaraðili framkvæmda og viðkomandi ráðuneyti þurfa að tryggja að eignfærsla nýbygginga sé í samræmi við lög um opinber fjármál. Sjá nánar kafla 4.7.

9. Leigueignir og leiguskuldir
Við innleiðingu á IPSAS 43 reyndust ábyrgðaraðilar vanmeta umfang og flækjustig verkefnisins og vill Ríkisendurskoðun ítreka að vanda þurfi undirbúning við innleiðingu nýrra reikningsskilastaðla. Sjá nánar kafla 4.8.

10. Lífeyrisskuldbindingar
Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs eru metnar samkvæmt reglugerð nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eins og kemur fram í skýringu 32 í ríkisreikningi en ekki samkvæmt IPSAS 39 um starfstengd réttindi. Ríkisendurskoðun bendir á að reikna skal út lífeyrisskuldbindingu ríkissjóðs í samræmi við lög um opinber fjármál og yfirlýsingu í skýringu 1 sem fjallar um grunn reikningsskilanna. Sjá nánar kafla 4.9.

11. Laun og launatengd gjöld – samþykki launa
Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að formlegu samþykki vegna launakeyrslu hvers mánaðar verði komið á í launakerfi áður en að útborgun fer fram en slíkt samþykki er ekki skilyrt í launakerfinu í dag. Sjá nánar kafla 4.10.

12. Laun og launatengd gjöld – afstemming á milli kerfa
Nauðsynlegt er að Fjársýsla ríkisins geri afstemmingar milli fjárhagsbókhalds og launakerfis með reglubundnum hætti innan ársins og í lok þess þannig að kerfisvillur og mistök í skráningu uppgötvist tímanlega. Einnig er áréttað að gera þarf heildarafstemmingu á milli launakerfis og fjárhagsbókhalds í tengslum við gerð ríkisreiknings. Sjá nánar í kafla 4.10.

13. Laun og launatengd gjöld – skýringar
Ríkisendurskoðun bendir á að samkvæmt IPSAS stöðlum skal upplýsa um starfstengdar greiðslur og mögulegar skuldbindingar vegna þeirra svo sem vegna veikindarétts, námsleyfa og starfslokauppgjörs í ríkisreikningi og í skýringum um laun og launatengd gjöld. Sjá nánar í kafla 4.10.

14. Fjáreignir og fjárskuldir – flokkun fjármálagerninga
Flokka skal fjármálagerninga eftir eðli upplýsinga sem greina þarf frá í skýringum ásamt því að taka tillit til einkenna þeirra. Samkvæmt IPSAS 30.11 skal upplýsa um fjárhæð allra tegunda fjáreigna eins og þær eru skilgreindar í IPSAS 41 í skýringum eða í efnahagsreikningi, en slík skýring er ekki til staðar í ríkisreikningi. Sjá nánar í kafla 4.11.

15. Fjáreignir og fjárskuldir - lántökur
Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að Fjársýsla ríkisins hafi aðgang að lánakerfi sem reiknar virka vexti í samræmi við IPSAS þar sem það krefst mikillar handavinnu að halda utan um bókfært virði skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í töflureikni með tilheyrandi villuhættu. Sjá nánar í kafla 4.11.

16. Óvissar eignir og óvissar skuldir
Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við að hjá ríkinu er ekki heildstætt yfirlit um reiknaðar skuldbindingar, óvissar skuldir og óvissar eignir. Sjá nánar í kafla 4.12.

17. Skuldbindingar vegna velferðarþjónustu
Ríkisendurskoðun bendir á að upplýsingagjöf í ríkisreikningi er rýr þegar kemur að mati á áhrifum af innleiðingu IPSAS 42 um velferðarþjónustu og félagslega aðstoð. Ekki kemur fram hvaða hlutar reikningsskilastaðalsins hafa verið innleiddir eða hvaða áhrif og breytingar full innleiðing hans hefur í för með sér. Ríkisendurskoðun sér ástæðu til þess að fjármála- og efnahagsráðuneyti fái tryggingastærðfræðinga til að reikna út áhrif mögulegra skuldbindinga vegna innleiðingar. Sjá nánar í kafla 4.13.

18. Ríkisaðilar í A1- hluta ríkissjóðs
Samkvæmt 54. gr. laga um opinber fjármál skal hver ráðherra sjá til þess að ríkisaðilar sem undir hann heyra uppfylli ákvæði laganna um skilafresti ársreikninga. Fjármála- og efnahagsráðuneyti þarf að tryggja að ekki sé misbrestur á skilum og yfirfara hvað hamlar að skilað sé innan lögbundins skiladags. Sjá nánar í kafla 4.15.

19. Ríkisaðilar í A2- hluta - ÍL-sjóður
Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við að ársreikningur ÍL-sjóðs sé gerður í samræmi við lög um ársreikninga í stað IPSAS líkt og lög um opinber fjármál segja til um. Sjá nánar í kafla 4.16.1.

20. Fylgni við reikningsskilastaðla - gátlistar
Þar sem ekki var stuðst við gátlista fyrir IPSAS staðla vegna ríkisreiknings 2024, skortir upplýsingar um þau atriði sem upp á vantar til að tryggja fylgni við reikningsskilastaðla. Sjá nánar í kafla 5.

21. Fylgni við reikningsskilastaðla - frestanir
Samkvæmt áritun fjármála- og efnahagsráðherra og fjársýslustjóra er gert ráð fyrir að IPSAS 36, 37, 38 og 42 verði að fullu innleiddir í ríkisreikningi 2025. Ríkisendurskoðun ítrekar að innleiðing reikningsskilastaðla er flókið og tímafrekt viðfangsefni sem krefst vandaðra vinnubragða og góðs undirbúnings. Sjá nánar í kafla 5.

22. Fylgni við reikningsskilastaðla – nýir staðlar
Formfesta þarf verklag vegna innleiðingar á nýjum reikningsskilastöðlum og framsetningu og mat á áhrifum þeirra á ríkisreikninga. Ef um er að ræða flókin reikningsskilamál sem mögulega hafa veruleg áhrif á ríkisreikning, leggur Ríkisendurskoðun til að kallað verði á utanaðkomandi reikningsskilasérfræðinga til aðstoðar. Ríkisendurskoðun vill árétta mikilvægi þess að reikningsskilastaðlar sem taka gildi 2025 verði innleiddir tímanlega. Sjá nánar í kafla 5.