08.12.2025
Innviðaráðuneyti og Vegagerðin hafa komið til móts við tvær af þremur ábendingum sem settar voru fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2022 um framkvæmda- og rekstrarkostnað vegna Landeyjahafnar.
Eftirfylgni: Landeyjahöfn – framkvæmda- og rekstrarkostnaður (pdf)
Með þessari skýrslu gerir Ríkisendurskoðun grein fyrir eftirfylgni með þeim niðurstöðum og tillögum til úrbóta sem settar voru fram í skýrslunni Landeyjahöfn. Framkvæmda- og rekstrarkostnaður (maí 2022).
Innviðaráðuneyti og Vegagerðin hafa komið til móts við tvær af þremur ábendingum sem settar voru fram í skýrslunni. Vegagerðin hefur fært kostnað vegna viðhaldsdýpkunar Landeyjahafnar sem rekstrarkostnað frá árinu 2022, það er að segja í samræmi við tillögu Ríkisendurskoðunar til úrbóta frá 2022. Einnig viðurkennir stofnunin mikilvægi þess að vanda enn frekar til undirbúnings verka, í tengslum við tillögu Ríkisendurskoðunar frá 2022 þess efnis.
Hvað varðar tillögu Ríkisendurskoðunar til úrbóta frá 2022 um að ráðast þyrfti í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum á Landeyjahöfn hafði innviðaráðuneytið bundið vonir við að óháð úttekt sem Vegagerðin fól ráðgjafastofunum Vatnaskilum og LVRS Consultancy að vinna myndi leiða í ljós hvaða leiðir væru í boði til að minnka árlega dýpkunarþörf, bæta dýpkunar aðferðir og meta hvort mannvirki við höfnina gætu bætt rekstrargrundvöll hennar. Að mati Vegagerðarinnar stóð skýrslan, sem skilað var í maí 2024, ekki undir væntingum. Þess í stað var haldið af stað með nýtt rannsóknarverkefni í samstarfi við dönsku straumfræðistofuna DHI. Verkefnið er í tveimur áföngum og munu niðurstöður fyrri áfanga liggja fyrir vorið 2025 en þess seinni í lok árs 2025 eða upphafi árs 2026. Í kjölfarið verða niðurstöður greindar og þá hefst vinna við umhverfismat og hönnun. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að sú vinna taki tvö ár.