08.10.2020
Í júní 2019 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um rekstur og fjárhagsstöðu Íslandspósts ohf. Skýrslan var unnin að beiðni fjárlaganefndar Alþingis sem óskað hafði eftir því að ríkisendurskoðandi gerði úttekt á tilteknum fjárhagslegum þáttum í starfsemi félagsins. Tilefni úttektarbeiðninnar má rekja til þess að stjórn Íslandspósts ohf. leitaði um mitt ár 2018 til fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem fer með eignarforsvar ríkisins gagnvart félaginu, um aðstoð til að mæta fyrirsjáanlegum greiðsluvanda. Samhliða útgáfu skýrslu Ríkisendurskoðunar var ákveðið að ráðast í framhaldsúttekt á Íslandspósti ohf. þegar rekstrarniðurstaða ársins 2019 lægi fyrir og fyrirsjáanlegt væri í hvaða átt reksturinn á árinu 2020 stefndi.
Í þessari skýrslu er fyrst fjallað um rekstur og fjárhagsstöðu Íslandspósts ohf. á árinu 2019 og alþjónustuskyldur fyrirtækisins eftir gildistöku nýrra póstlaga frá og með 1. janúar 2020. Fjallað er sérstaklega um aðgerðir sem eigandi og stjórn félagsins hafa gripið til í því skyni að bæta rekstur og fjárhagsstöðu þess og því næst vikið að rekstraráætlunum og væntanlegri rekstrarniðurstöðu ársins 2020. Loks er fjallað um hvaða ályktanir megi draga um rekstrarhæfi félagsins út frá núverandi stöðu og aðgerðum sem gripið hefur verið til.