Tryggingastofnun ríkisins hefur það meginhlutverk að annast framkvæmd og stjórnsýslu lífeyristrygginga almannatrygginga. Stofnunin ákvarðar ekki fjárhæðir greiðslna og bóta sem greiddar eru á grundvelli laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð en hún úrskurðar í málefnum fólks og ákvarðar réttindi þeirra og skyldur, m.a. á grundvelli framangreindra laga. Árið 2019 greiddi stofnunin út um 153 ma.kr. til rúmlega 77.300 viðskiptavina. Það jafngilti um 19% ríkisútgjalda. Viðskiptavinir Tryggingastofnunar eru margir í viðkvæmri stöðu og treysta alfarið á greiðslur frá stofnuninni. Af þeim sökum verður að gera ríkar kröfur til stofnunarinnar um fagmennsku og góða stjórnsýslu, ekki síst á sviði upplýsingagjafar og leiðbeininga. Verklag stofnunarinnar þarf jafnframt að vera vel skilgreint svo að tryggt sé að mál séu afgreidd tímanlega og á réttan og samræmdan máta en löggjöf þarf sömuleiðis að vera skýr, kæruleiðir vel skilgreindar og stefnumótun í málaflokknum markviss.
- Árangur, verklag og stefna Tryggingastofnunar
Tryggingastofnun hefur á undanförnum árum lagt mikið kapp á stefnumótun og almennt gæðaumbótastarf í anda sjónarmiða um málefnalega og viðurkennda stjórnsýsluhætti. Stofnunin hefur sett sér stefnu og áætlanir á flestum sviðum starfseminnar, þ.á.m. þjónustustefnu sem kveður á um framúrskarandi þjónustu og fagmennsku í starfsháttum. Gæðahandbók er til staðar sem hefur að geyma vinnulýsingar og verklagsreglur. Henni er ætlað að tryggja samræmda afgreiðslu mála en mikilvægt er að Tryggingastofnun vinni að því að handbókin uppfylli kröfur alþjóðlegra gæðastaðla og tryggi markvissa innleiðingu hennar svo að það skili sér betur í vinnubrögðum stofnunarinnar. Þá hefur verið unnið að því að straumlínulaga starfsemina og hagræða í rekstri en breytingar á skipuriti hafa miðað að aukinni sérhæfingu og samfelldri og hraðari afgreiðslu mála.
- Brotalamir í meðferð mála
Þrátt fyrir áherslu á gæðaumbótastarf eru dæmi um brotalamir í framkvæmd almannatryggingalaga og meðferð stjórnsýslumála hjá Tryggingastofnun. Dæmi eru um að viðskiptavinir hafi fyrir vikið orðið af réttindum sínum, um lengri eða skemmri tíma. Slíkt er alvarlegt og getur haft mikil áhrif á fjárhag viðkomandi auk þess að grafa undan trausti til stofnunarinnar. Umboðsmaður Alþingis hefur í álitum sínum bent á að rannsóknarskylda hafi ekki verið uppfyllt og að stofnunin hafi ekki aflað allra nauðsynlegra gagna við afgreiðslu tiltekinna mála. Þá hefur úttekt Ríkisendurskoðunar m.a. leitt í ljós að Tryggingastofnun þarf að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni ásamt því að efla aðgengi og upplýsingagjöf til viðskiptavina. Mikilvægt er að aðgengi að upplýsingum á vef stofnunarinnar sé gott.
- Staðfestingarhlutfall úrskurða
Afgreiðsla Tryggingastofnunar á málum er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Tryggingastofnun hefur bent á að hlutfall úrskurða nefndarinnar sem staðfesti verklag stofnunarinnar sé yfir 80% en í þeim útreikningi eru meðtalin mál sem eru afturkölluð áður en nefndin úrskurðar í málinu. Í sumum þeirra tilvika hefur Tryggingastofnun breytt fyrri ákvörðun sinni og kærandi í framhaldinu dregið kæru sína til baka. Sé leiðrétt fyrir slíkar afturkallanir reynist hlutfall úrskurða sem staðfestu verklag Tryggingastofnunar eða vísa máli frá hafa verið 61–70% á tímabilinu 2017–19. Þótt staðfestingarhlutfall hafi hækkað telur Ríkisendurskoðun að Tryggingastofnun þurfi að bæta verklag sitt.
- Hátt hlutfall of- og vangreiðslna
Útreikningur greiðslna frá Tryggingastofnun byggir á tekjuáætlunum sem stofnunin leggur drög að og eru síðan staðfestar af hverjum viðskiptavini. Þegar upplýsingar um rauntekjur liggja fyrir endurreiknar Tryggingastofnun fjárhæðir bóta og leiðréttir greiðslur eftir atvikum.
Á tímabilinu 2016–19 leiddi endurreikningurinn í ljós að mikill meirihluti lífeyrisþega fékk ýmist of- eða vangreiddar greiðslur vegna mismunar á tekjuáætlun og rauntekjum. Einungis 9,4–13% fengu réttar greiðslur. Nauðsynlegt er að ráðast í markvissar aðgerðir til að minnka umfang endurreiknings bóta og draga úr frávikum vegna framangreinds mismunar. Þar skiptir aukin samvinna Tryggingastofnunar við lífeyrissjóðina og Skattinn miklu máli en meginástæður frávika má rekja til breytinga sem verða á fjármagnstekjum og lífeyrissjóðsgreiðslum frá því tekjuáætlun er gerð. Þá telur Ríkisendurskoðun að meta þurfi ábata þess að setja vikmörk á mismun tekjuáætlana og rauntekna lífeyrisþega og endurskoða þá fjárhæð sem ekki skal innheimta komi til ofgreiðslna en sú fjárhæð er í dag 1.000 kr.
- Lög um almannatryggingar
Markmið laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er að tryggja þeim sem lögin taka til og þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna í þeirra forsjá. Markmiðið er að þeir sem njóta þessara greiðslna geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi. Almannatryggingakerfinu er þó eingöngu ætlað að tryggja fólki ákveðinn lágmarkslífeyri. Meginhugsunin er að greiðslur renni til þeirra sem lægsta hafa framfærsluna en flestir eiga jafnframt rétt til greiðslna úr lífeyrissjóðum vegna skyldutrygginga og séreignasparnaðar. Þessar tvær meginstoðir lífeyristrygginga heyra undir tvö ráðuneyti en heildstæð stefna sem tekur á hlutverki þeirra og verkaskiptingu liggur ekki fyrir. Mikilvægt er að bæta úr því en huga þarf vel að samspili þessara tveggja kerfa og auka samskipti og upplýsingagjöf þeirra á milli.
Breytingar á almannatryggingalöggjöfinni hafa verið tíðar og því er mikið um viðbætur og innri tilvísanir í henni. Lögin eru að hluta til flókin og ógagnsæ og hefur það haft neikvæð áhrif á framkvæmd þeirra. Dæmi eru um að mikilvæg ákvæði laganna séu opin til túlkunar sem taki breytingum í meðferð Tryggingastofnunar án þess að nokkuð í lagaumhverfinu hafi breyst. Ber þar helst að nefna túlkun á framtíðarútreikningi búsetuhlutfalls örorkulífeyrisþega en einnig á búsetuhlutfalli ellilífeyrisþega. Í tilviki ellilífeyrisþega byggði stofnunin verklag sitt um langt skeið á lagatúlkun sem mismunaði þeim sem áður höfðu þegið örorkulífeyri. Brýn þörf er á heildarendurskoðun löggjafarinnar en vinna við hana hefur staðið yfir frá árinu 2005. Skýr löggjöf dregur úr hættu á mistökum við útreikning og afgreiðslu lífeyrisréttinda og bóta og er því til mikils að vinna, bæði fyrir ríkissjóð og lífeyrisþega, að heildarendurskoðun ljúki sem fyrst.
Í grundvallaratriðum skiptist almannatryggingalöggjöfin í tvennt. Annars vegar málefni aldraðra og hins vegar málefni öryrkja og þeirra sem búa við skerta færni. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á þeim hluta sem lýtur að eldri borgurum og hefur það skilað sér í aukinni sátt um málefni aldraðra. Ekki hefur tekist að ná viðlíka sátt í málefnum öryrkja og ríkir mun meiri óánægja innan þess hóps með störf Tryggingastofnunar. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að meta hvort rétt kunni að vera að skipta lögunum upp þannig að sérstök lög gildi um ellilífeyri og önnur um greiðslur til öryrkja og fólks með skerta færni. Þótt báðir hópar sæki þjónustu og greiðslur til Tryggingastofnunar er um eðlisólíka hópa að ræða og hagsmunir þeirra við lagasetningu oft mismunandi. Það getur tafið nauðsynlega umbótavinnu og því er líklegt að lagasetning yrði skilvirkari ef hún fjallaði um afmarkaðra efni og að breytingarnar næðu til þrengri hóps en allra lífeyrisþega landsins.
- Samskipti félagsmálaráðuneytis og Tryggingastofnunar
Samskipti félagsmálaráðuneytis og Tryggingastofnunar eru regluleg og samráðsfundir veita ráðuneytinu innsýn í daglegan rekstur og starfsemi stofnunarinnar. Þar er t.d. rætt um veruleg frávik í rekstri stofnunarinnar þegar þau koma upp og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Eins hefur ráðuneytið eftir atvikum kannað hvort framkvæmd Tryggingastofnunar sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, s.s. upplýsingaskyldu, andmælarétt og rannsóknarskyldu, og gert athugasemdir ef svo er ekki. Dæmi eru um ólík sjónarmið ráðuneytis og Tryggingastofnunar um nauðsyn tiltekinna lagabreytinga, túlkun laga o.s.frv. en ráðuneytið leitar nær undantekningarlaust eftir sjónarmiðum og umsögnum stofnunarinnar vegna breytinga á lögum og reglugerðum um almannatryggingar. Þessir aðilar hafa jafnframt átt í samskiptum vegna útreikninga í tengslum við mögulegar breytingar á fjárhæðum og frítekjumörkum bóta, vegna kærumála á hendur stofnuninni og álita frá umboðsmanni Alþingis. Tryggingastofnun á að jafnaði fulltrúa í vinnu- og starfshópum ráðuneytisins á þessu sviði enda ber henni lögum samkvæmt að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í málaflokknum.
Þótt samstarf þessara aðila sé gott ber að vekja athygli á að samkvæmt upplýsingum félagsmálaráðuneytis hamlar undirmönnun markvissri stefnumótun og tefur heildarendurskoðun laganna. Nauðsynlegar úrbætur á lögunum ná ekki fram að ganga og torveldar það framkvæmd þeirra, eykur líkur á mistökum og ýtir undir óánægju hagsmunaaðila. Tíð ráðherraskipti, sameiningar og uppskiptingar ráðuneytisins hafa jafnframt haft áhrif á framangreinda þætti.
Dæmi eru um að lagasetning hafi ekki alltaf verið nægjanlega vönduð, að ekki hafi verið tekið tillit til réttmætra athugasemda Tryggingastofnunar þar að lútandi og að lagasetning hafi verið afgreidd í mikilli tímaþröng. Þar ber helst að nefna setningu laga nr. 116/2016 þar sem felld voru brott skerðingarákvæði sem ekki stóð til að afnema. Mistökin voru lagfærð rúmum fjórum mánuðum eftir samþykkt laganna en frá gildistöku þeirra greiddi Tryggingastofnun lífeyri líkt og ákvæðið hefði aldrei fallið niður. Sú ákvörðun var véfengd fyrir dómstólum og var Tryggingastofnun gert að leiðrétta umræddar greiðslur. Ríkisendurskoðun vekur athygli á að mistök við lagasetningu og óskýr lagaákvæði almannatryggingalaga hafa kallað á leiðréttingar sem kosta munu ríkissjóð a.m.k. 9 ma.kr. í óvænt útgjöld á tímabilinu 2019–21.
- Óánægja meðal öryrkja
Að sögn Öryrkjabandalags Íslands leita öryrkjar daglega til þess eftir upplýsingum og ráðgjöf sem Tryggingastofnun ætti að veita þeim. Ástæður þessa eru m.a. vantraust og óánægja með þjónustu stofnunarinnar. Þá virðast margir lífeyrisþegar eiga í vandræðum með að skilja upplýsingar sem þaðan koma. Algengt er að kvartað sé yfir því að bréf stofnunarinnar séu illskiljanleg og ógagnsæ og að forsendur útreiknings og afgreiðslu mála séu óljósar. Þá þarf að bæta þjónustu við viðskiptavini sem ekki eru íslenskumælandi en stöðluð bréf stofnunarinnar hafa ekki verið þýdd á helstu tungumál notenda þjónustunnar.
Töluvert er um að skjólstæðingar Öryrkjabandalagsins veiti því umboð til að fara með mál sín fyrir Tryggingastofnun með það fyrir augum að fá niðurstöður endurskoðaðar. Dæmi eru um að slík endurskoðun leiði til mikilla breytinga á réttindum fólks eða andstæðrar niðurstöðu í málinu. Þótt fagna beri leiðréttingum er þetta verulegt áhyggjuefni enda óljóst hversu margir einstaklingar búa við ranga niðurstöðu án þess að gera sér grein fyrir því eða hafa burði til að fylgja málum eftir. Í ljósi þessa og hversu miklir hagsmunir eru í húfi telur Ríkisendurskoðun brýnt að a.m.k. tveir starfsmenn Tryggingastofnunar komi að lokaafgreiðslu hvers máls en svo er ekki alltaf. Enn fremur er mikilvægt að innri úttektir á starfsemi stofnunarinnar séu gerðar reglulega.
- Umboðsmenn Tryggingastofnunar
Ríkisendurskoðun bendir á að í umboðum Tryggingastofnunar hjá sýslumannsembættum landsins eru afgreiddar almennar umsóknir. Starfsfólk umboðanna heyrir ekki undir stjórn Tryggingastofnunar en tekur þó ákvarðanir í hennar nafni. Að mati Ríkisendurskoðunar er ástæða til að endurskoða þetta fyrirkomulag til að auka yfirsýn og tryggja samræmda afgreiðslu mála. Aukin rafræn þjónusta hefur auk þess dregið úr þörf fyrir nærþjónustu og fækkun sýslumannsembætta orðið til þess að þjónustan er ekki veitt eins víða og áður var.
- Fjárveitingar, rekstur og fjármál Tryggingastofnunar
Tryggingastofnun hefur að jafnaði verið rekin innan fjárveitinga síðastliðin ár. Stofnunin sinnir lögbundnum skyldum sínum innan þess fjárhagsramma sem henni hefur verið settur og hefur fengið auknar fjárveitingar til að mæta óvæntum og tímabundnum verkefnum. Stofnunin telur þó að aukið fjármagn þurfi til rekstursins svo að t.d. sé hægt að sinna betur eftirliti sem er eitt af lögbundnum verkefnum hennar og gæðabætandi verkefnum sem ekki teljast lögbundin. Þá hefur Tryggingastofnun bent á að ekki verði hægt að mæta aðhaldskröfu fjárlaga nema með lækkun launakostnaðar og fækkun starfsfólks.
Upp hafa komið verkefni og aðstæður sem kallað hafa á auknar fjárveitingar til Tryggingastofnunar og þá hefur félagsmálaráðuneyti að jafnaði brugðist við með óskum þar um. Ráðuneytið telur þó að fjárþörf stofnunarinnar sé ekki jafn brýn og hún sjálf heldur fram og bendir m.a. á að Tryggingastofnun hafi ekki verið látin sæta sömu aðhaldskröfu og aðrar undirstofnanir þess.
Til að hægt sé að meta fjárþörf Tryggingastofnunar telur Ríkisendurskoðun að liggja þurfi fyrir starfsþáttagreining á starfsemi stofnunarinnar og upplýsingar úr verkbókhaldi en hvorugu er til að dreifa. Flest bendir til að fjárþörf stofnunarinnar hafi að jafnaði verið mætt og hefur rekstrargrunnur hennar tekið breytingum á undanförnum árum. Stofnunin hefur m.a. fengið varanlegar viðbætur við fjárheimildir sínar til að koma á og sinna tilteknum verkefnum. Má þar nefna samtals 90 m.kr. vegna undirbúnings innleiðingar á starfsgetumati, 30 m.kr. til að koma á fót umboðsmanni lífeyrisþega og 30 m.kr. til bættrar upplýsingagjafar til viðskiptavina. Starfsgetumat hefur þó hvorki verið innleitt í löggjöf né hefur stöðu umboðsmanns lífeyrisþega verið komið á fót.
Ríkisendurskoðun gagnrýnir að fjárveitingar séu ekki nýttar með þeim hætti sem löggjafinn ætlaði og vísar þar til stöðu umboðsmanns lífeyrisþega. Hlutverk hans samkvæmt fjárlagafrumvarpi var að veita lífeyrisþegum leiðbeiningar og upplýsingar um réttindi samkvæmt lögum en Tryggingastofnun hefur, með vitund félagsmálaráðuneytis, nýtt fjárveitingarnar til daglegra samkeyrslna upplýsinga í tölvukerfum stofnunarinnar, ábendinga um vannýtt réttindi, reksturs kerfa og gerð einstaklingsbundinna leiðbeininga. Að mati Ríkisendurskoðunar er þessu tvennu ekki saman að jafna