20.04.2021
Þann 18. júní 2019 sendi Alþingi ríkisendurskoðanda beiðni um skýrslu, sbr. 965. mál, þskj. 1774 á 149. löggjafarþingi, um aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri Wow air hf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins í mars 2019 og eftir það.
Fall Wow air hf. - aðkoma Samgöngustofu og Isavia ohf. (pdf)
Verklag vegna fjárhagsörðugleika flugrekenda
Skýrar verklagsreglur, -ferlar og viðmið um eftirlit þurfa að liggja fyrir þegar upp koma vísbendingar um fjárhagsörðugleika flugrekenda og tryggja þarf að tafarlaust sé gert ítarlegt fjárhagsmat þegar vísbendingar eru um að flugrekandi uppfylli ekki skilyrði um fjárhagslega burði. Þá er nauðsynlegt að eftirlitið hefjist með formlegum hætti og því sé markaður tímarammi.
Leiði matið í ljós að fjárhagsstaða flugrekanda sé ekki ásættanleg skal fella flugrekstrarleyfi tímabundið úr gildi eða afturkalla það í samræmi við gildandi lagafyrirmæli. Í slíku tilfelli ætti að nýta þá heimild sem er í fyrirliggjandi regluverki til að veita tímabundið flugrekstrarleyfi meðan á fjárhagslegri endurskipulagningu stendur ef áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu eru taldar raunhæfar samkvæmt fyrirliggjandi viðmiðum.
Verklag vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar flugrekenda
Skýrar verklagsreglur, -ferlar og viðmið þurfa að liggja fyrir þegar leggja á mat á hvort tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar flugrekenda teljast raunhæfar.
Geti flugrekandi í fjárhagsvanda ekki sýnt fram á að tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar uppfylli viðmiðin ber að afturkalla flug-rekstrarleyfi eða bregðast við með viðeigandi hætti.
Sérfræðiþekking og geta þarf að vera tryggð
Tryggja þarf að til staðar sé sérfræðiþekking og geta til að leysa úr þeim álitamálum sem upp kunna að koma við eftirlit með fjárhag flugrekstraraðila. Sé þekking og geta ekki til staðar þarf að sækja ráðgjöf og aðstoð til utanaðkomandi sérfróðra aðila eins og þörf er á.
Flugfélagið Wow air hf. var stofnað í nóvember 2011 og starfaði upphaflega undir flugrekstrarleyfi litháíska félagsins Aviona Express. Í lok október 2013 veitti Samgöngustofa Wow air hf. flugrekstrarleyfi og komst félagið þar með undir eftirlit Samgöngustofu. Mikil aukning varð á umsvifum félagsins á árunum 2013-16. Árið 2017 urðu straumhvörf í alþjóðlegum flugrekstri til hins verra, m.a. vegna offramboðs á flugsætum og hækkunar á eldsneytisverði. Aðstæður á farþegaflugsmarkaði héldu áfram að þrengjast á árinu 2018 og fór Wow air hf. ekki varhluta af því. Þegar halla fór undan fæti í rekstri Wow air hf. á haustmánuðum 2018 fóru stjórnvöld að fylgjast betur með rekstri þess. Mál er vörðuðu flugfélagið rötuðu m.a. inn á borð ráðherranefndar um samræmingu mála sem samdi viðbragðsáætlun sem hrinda átti í framkvæmd ef rekstur flugfélags stöðvaðist. Alls voru málefni Wow air hf. rædd á 15 fundum ráðherranefndarinnar á tímabilinu 20. ágúst 2018 til 28. mars 2019 en þann sama dag var fyrrnefnd viðbragðsáætlun virkjuð. Á sömu fundum voru kynntar og ræddar ýmsar efnahagslegar greiningar sem gerðar voru á þeim áhrifum sem fækkun ferðamanna og rekstrarstöðvun flugfélags hefðu á íslenskt efnahagslíf. Á haustmánuðum 2018 fór Samgöngustofa jafnframt að fylgjast nánar með rekstri og stöðu félagsins en Isavia ohf. hafði þegar í árslok 2017 farið að fylgjast nánar með rekstri félagsins. Wow air hf. var svo úrskurðað gjaldþrota 28. mars 2019.
Eftirfarandi svarar þeim álitaefnum sem sett voru fram í skýrslubeiðni til ríkisendurskoðanda: