Atvinnuleysistryggingasjóður - endurskoðunarskýrsla 2020

17.09.2021

Ríkisendurskoðun hefur lokið endurskoðun ársreiknings Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir árið 2020. Vakin er athygli á að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur ekki undirritað ársreikninga sjóðsins allt frá árinu 2017 eða eftir að lög nr. 123/2015 (LOF) um opinber fjármál tóku gildi vegna ágreinings stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs við fjármálaráðuneyti um breyttra framsetningu ársreiknings sjóðsins með innleiðingu LOF. Á árinu 2020 jukust umsvif sjóðsins umtalsvert frá fyrra ári vegna Covid-19 og aðgerða stjórnvalda til að stemma stigu við áhrif faraldursins á vinnumarkaðinn.

Atvinnuleysistryggingasjóður var síðast endurskoðaður vegna ársins 2018.

Atvinnuleysistryggingasjóður - endurskoðunarskýrsla 2020 (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

Vakin er athygli á eftirfarandi ábendingum og athugasemdum:

  1. Gömul tæknilega úrelt upplýsingakerfi
    Nú er unnið að innleiðingu á nýju upplýsingakerfi Galdri. Lögð er áhersla á að nýtt upplýsingakerfi verði tekið í notkun eins fljótt og kostur er þar sem upplýsingakerfi sem notuð eru í dag eru orðin gömul og tæknilega úrelt og því ákveðin öryggisáhætta fólgin í notkun þeirra. Tryggja þarf að fullt samræmi sé á milli afgreiðslna í kerfinu og færslna í bókhaldi.
     
  2. Þjónustusamningar við Vinnumálastofnun
    Ítrekaðar eru fyrri ábendingar Ríkisendurskoðunar um að nýr þjónustusamningur verði gerður á öllum verkefnum sem Vinnumálastofnun sinnir vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs en núverandi þjónustusamningur er frá árinu 2007.
     
  3. Bundið eigið fé
    Krafa á ríkissjóð vegna innheimtu atvinnutryggingagjalds er nánast óbreytt frá því í árslok 2017 sem stafar af gildistöku LOF en ekki liggur fyrir hvernig skuli farið með bundið eigið fé í bókhaldi sjóðsins. Bundið eigið fé nam 18.180,6 m.kr. í árslok 2018.
     
  4. Bankareikningar
    Tryggja þarf að bankareikningar í eigu sjóðsins séu skráðir á réttan eiganda hjá Landsbankanum. Þá þarf að yfirfara aðgang starfsmanna að bankareikningum sjóðsins og loka aðgangi sem ekki er viðeigandi.