Úrvinnslusjóður - stjórnsýsluúttekt

29.08.2022

Þann 31. maí 2021 samþykkti Alþingi, á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, að óska eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda um starfsemi Úrvinnslusjóðs. Ríkisendurskoðandi varð við þeirri beiðni og hóf úttekt í lok september sama ár.

Úttekt Ríkisendurskoðunar miðaði að því að svara spurningum Alþingis auk þess sem ástæða þótti til að skoða meðferð plastúrgangs sérstaklega í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um þau mál. Þá taldi Ríkisendurskoðun rétt að kanna hvernig Úrvinnslusjóði miðar við að ná tölulegum markmiðum um söfnun og endurvinnslu eða endurnýtingu úrgangs sem tilgreind eru í lögum og reglugerðum um meðhöndlun úrgangs.

Úrvinnslusjóður - stjórnsýsluúttekt (pdf)

Mynd með færslu

Útdráttur skýrslu

  1. Styrkja þarf starfsemi Úrvinnslusjóðs
    Úrvinnslusjóður þarf að styrkja starfsemi sína. Gera verður þarfagreiningu, fjölga starfsfólki og styrkja þekkingu er lýtur að verkefn um sjóðsins. Á grundvelli þarfagreiningar þarf einnig að bæta þau kerfi sem halda utan um starfsemi og verkefni sjóðsins. Skrá þarf verkferla, koma á innra eftirliti og uppfæra skilmála um meðhöndlun úrgangsflokka með reglubundnum hætti. Þá þarf að bæta upplýsingagjöf til almennings, stjórnar og hagsmunaaðila um forsendur úrvinnslu- og endurgjalda og skýra verkaskiptingu milli starfsfólks og stjórnarmanna. 
     
  2. Bæta þarf eftirlit með innheimtu úrvinnslugjalds
    Tryggja þarf skilvirkt eftirlit með því að þeir sem eiga að greiða úrvinnslugjald skili sér á gjaldendaskrá og koma á reglubundnu samráði milli Skattsins og Úrvinnslusjóðs í þessu sambandi. Í þeim tilvikum sem undanþágur eru heimilar þarf að meta kosti þess að endurgreiða úrvinnslugjald á grundvelli staðfestra útflutningsgagna í stað þess að gjöld séu felld niður við innflutning. Erfitt er að staðfesta að útflutningur muni eiga sér stað síðar
     
  3. Endurskoða þarf tollskrá 
    Koma þarf á reglubundnu samráði Skattsins og Úrvinnslusjóðs vegna endurskoðunar tollskrárnúmera með tilliti til úrvinnslugjalda. Þá þarf Úrvinnslusjóður að beita sér fyrir uppfærslu viðauka við lög um úrvinnslugjald samhliða breytingum á tollskrá.
     
  4. Sannreyna þarf endanleg afdrif úrgangs
    Koma þarf á skilvirkum leiðum til að sannreyna raunveruleg afdrif úrgangs að því marki sem unnt er. Kalla þarf nú þegar eftir gögnum, bæði frá þjónustuaðilum og ráðstöfunaraðilum, sem sýna fram á magn og tegund ráðstöfunar. Setja þarf fram skýra skilmála um hvaða gagna sé krafist til staðfestingar og hvernig vottun þeirra skuli háttað. Þannig verði stuðlað að því að meðhöndlun úrgangs verði í samræmi við lög og markmið. Ítarlegri gögn stuðla einnig að því að upplýsingar um úrgangstölfræði verði áreiðanlegri.
     
  5. Stuðla þarf að aukinni endurvinnslu innanlands 
    Skoða þarf möguleika þess að auka innlenda endurvinnslu t.d. með hækkun endurgjalda. Slíkt fyrirkomulag myndi þjóna markmiðum laga um úrvinnslugjald og einfalda eftirlit með ráðstöfun úrgangs. Sú tilhögun getur þó talist ríkisstyrkur samkvæmt EES samningnum og því þarf umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti að tilkynna slíkt með formlegum hætti og gera viðeigandi lagabreytingar. 
     
  6. Efla þarf stuðning ráðuneytis og eyða ágreiningi
    Efla þarf stuðning ráðuneytis þegar upp koma álitamál í starfsemi Úrvinnslusjóðs, m.a. vegna innleiðingar nýrra laga. Greiða þarf úr ólíkri túlkun innan stjórnar sjóðsins varðandi sérstaka söfnun og gæta þess að Úrvinnslusjóður noti rétta hvata til að stuðla að árangursríkri innleiðingu hringrásarhagkerfis. Þá þarf ráðuneytið að leggja aukna áherslu á gæði og áreiðanleika gagna og tölfræði um úrgang.
     

Úrvinnslusjóður var settur á fót með lögum um úrvinnslugjald og hóf starfsemi árið 2003. Hann er samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífisins. Meginverkefni sjóðsins er að sjá um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess og uppfylla þannig skilyrði um framleiðendaábyrgð og framlengda framleiðendaábyrgð. Markmið með starfsemi sjóðsins er að stuðla að myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að ýta undir sjálfbæra auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu. 

Ísland hefur þá sérstöðu að hér er úrvinnslugjald innheimt sem skattur sem lagður er á vörur við innflutning eða innlenda framleiðslu. Helgast það m.a. af því að þá er auðveldara að tryggja að allir framleiðendur og innflytjendur greiði úrvinnslugjöld af þeim vörum sem heyra undir framleiðendaábyrgð. Ekki hafa komið fram kröfur um breytingar á því fyrirkomulagi sem viðhaft hefur verið hér á landi en mikilvægt er að endurmeta kerfið, kosti þess og ágalla í ljósi þess að umfangið mun taka breytingum og verkefnum fjölga, m.a. með nýlegum lagabreytingum. 

Hjá Úrvinnslusjóði starfa sex starfsmenn. Verkefnaálag er töluvert og vandséð að starfsfólk anni fyrirliggjandi verkefnum með góðu móti. Opinber umfjöllun um starfsemi sjóðsins hefur reynst starfsfólki þungbær og nauðsynlegt er að hlúa að mannauði. Ekki er fyrir hendi formleg skráning eða vottun á verkferlum eða skjalastýringu. Skortur er á markvissri þekkingaryfirfærslu og innra eftirliti. Þá er fyrir hendi kerfislæg áhætta þar sem þau kerfi sem unnið er með henta ekki að öllu leyti þeim verkefnum sem vinna þarf. Mikil sérhæfing og þekking starfsmanna er þannig forsenda fyrir aðgengi og úrvinnslu gagna. 

Stjórnarmenn í Úrvinnslusjóði endurspegla ólíka aðkomu að starfsemi sjóðsins og ekki er alltaf sameiginleg sýn á þau mál sem koma upp. Aukinnar skilvirkni er þörf í störfum stjórnar og skörun hefur komið upp í verkaskiptingu milli starfsfólks Úrvinnslusjóðs og stjórnarmanna. Þá er nauðsynlegt að auka gagnsæi í starfsemi sjóðsins og upplýsingamiðlun. Stjórnendur Úrvinnslusjóðs sakna leiðsagnar ráðuneytis varðandi heildarsýn fyrir málaflokkinn og túlkun lagaákvæða þegar kemur að ýmsum álitaefnum og framkvæmdaatriðum við meðhöndlun úrgangs. Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneyti hefur hins vegar bent á að heildarstefna í úrgangsmálum hafi komið út í júní 2021. Þá vísar ráðuneytið til þess að stjórn Úrvinnslusjóðs skuli vera sjálfstæð í störfum sínum. Einnig að vinna standi yfir varðandi úrbætur á úrgangstölfræði og innleiðingu lagaákvæða sem taka munu gildi 1. janúar 2023. Hafa fulltrúar ráðuneytisins m.a. fundað reglulega síðan í nóvember 2021 með starfsfólki Úrvinnslusjóðs vegna þess.

Úrvinnslugjald
Úrvinnslugjald er lagt á vörur sem falla undir lög um úrvinnslugjald og nær það hvort tveggja til innlendrar framleiðslu og innfluttra vara. Því skal að meginhluta varið til meðhöndlunar og ráðstöfunar vara eftir að þær eru orðnar að úrgangi. Skatturinn innheimtir úrvinnslugjald af innfluttum vörum eftir tollskrárnúmerum, óháð því hvort viðkomandi vara ber toll. Mikilvægt er að koma á reglubundinni endurskoðun tollskrárnúmera með tilliti til úrvinnslugjalds en síðast fór endurskoðun fram árið 2017. 

Í lögunum eru heimildir til niðurfellingar úrvinnslugjalds. Á það við þegar fluttar eru inn vörur til innlendrar framleiðslu sem að framleiðsluferli loknu eru fluttar úr landi og koma því ekki til úrvinnslu hér á landi. Ekki hefur verið fylgst með að sá útflutningur fari raunverulega fram. Því telur Ríkisendurskoðun árangursríkara að innheimta úrvinnslugjald á innfluttu vörunum og endurgreiða það síðar gegn staðfestum gögnum um útflutning. Jafnframt telur Ríkisendurskoðun að koma þurfi á eftirliti með því að nýir innlendir framleiðendur sem greiða skulu úrvinnslugjald af vörum séu settir á gjaldendaskrá. 

Ársreikningar Úrvinnslusjóðs
Árleg velta Úrvinnslusjóðs sl. fimm ár hefur verið á bilinu 1.500-2.000 m.kr. Fjárheimildir til almenns rekstrar hafa verið um 3,6-4,7% af heildarfjárveitingu sjóðsins en um 95% rekstrargjalda eru vegna meðhöndlunar úrgangs í þeim vöruflokkum sem falla undir sjóðinn.

Þegar beiðni Alþingis um úttekt Ríkisendurskoðunar var samþykkt 31. maí 2021 höfðu hvorki ársskýrslur né ársreikningar Úrvinnslusjóðs verið birtir opinberlega frá árinu 2016. Starfsskýrsla 2017-20 hafði þó verið birt á vefsvæði sjóðsins fyrr í mánuðinum. Ástæður þessa má rekja til innleiðingar laga um opinber fjármál sem fól í sér afnám markaðra tekna. Þær breytingar urðu til þess að tekjur af úrvinnslugjaldi, sem fram að því höfðu í samræmi við lög um úrvinnslugjald runnið beint til sjóðsins, runnu nú í ríkissjóð sem síðan veitti sjóðnum sams konar fjárheimild í fjárlögum. Lögum um úrvinnslugjald var ekki breytt samhliða gildistöku laga um opinber fjármál og því skapaðist mótsögn um meðferð úrvinnslugjalds. Stjórn Úrvinnslusjóðs taldi sig ekki geta samþykkt ársreikninga sjóðsins þar sem framsetning þeirra stangaðist á við lög um úrvinnslugjald. 

Þann 13. júní 2021 samþykkti Alþingi lög nr. 103/2021 sem fela m.a. í sér breytingu á lögum um úrvinnslugjald. Þar er áskilið að tekjur Úrvinnslusjóðs skulu vera fjárveiting á grundvelli fjárheimilda í lögum sem nemur tekjuáætlun fjárlaga af úrvinnslugjaldi og endurmati á tekjuáætlun úrvinnslugjalds fyrra árs. Með þessari breytingu taldi stjórn sjóðsins að brugðist hefði verið við framangreindri mótsögn. Í framhaldi staðfesti hún ársreikninga og starfsskýrslur Úrvinnslusjóðs og voru þær í kjölfarið birtar á vef sjóðsins.

Greiðslur úr Úrvinnslusjóði 
Greiðslur úr Úrvinnslusjóði námu um 8,5 ma.kr. á tímabilinu 2016-20. Nokkur stór fyrirtæki á sviði úrgangsmeðhöndlunar eru starfandi hér á landi og fá þau hæstu greiðslurnar í takt við umsvif. 

Úrvinnslusjóður gerir samninga við þjónustuaðila um meðhöndlun úrgangs sem fellur undir lög um úrvinnslugjald. Sjóðurinn greiðir þjónustuaðilum endurgjald til að standa undir kostnaði við meðhöndlunina auk flutningsjöfnunar sem á að jafna kostnað vegna flutninga um landið. Þjónustuaðilar gera svo samninga við ráðstöfunaraðila um endanlega ráðstöfun en Úrvinnslusjóður þarf að samþykkja viðkomandi ráðstöfunaraðila. Þjónustuaðili fær ekki greitt endurgjald úr sjóðnum fyrr en hann framvísar skilagrein og staðfestingu ráðstöfunaraðila á mótteknu magni. 

Meðhöndlun úrgangs, afdrif og eftirlit
Eftirlit Úrvinnslusjóðs með þjónustuaðilum hefur fyrst og fremst falist í yfirferð á skilagreinum og gögnum sem þurfa að berast með reikningum til sjóðsins. Þá gerir sjóðurinn kröfu um að þjónustuaðilar hafi gild starfsleyfi til meðhöndlunar úrgangs. Að öðru leyti treystir sjóðurinn á að útgefendur starfsleyfa fylgist með að starfsemi þeirra sé í samræmi við þau lög og reglur sem um hana gilda. Þar sem þjónustuaðilar gera samning við ráðstöfunaraðila um endanlega ráðstöfun úrgangsins hefur Úrvinnslusjóður haft takmarkaða aðkomu að slíkum samningum. Úrvinnslusjóður skilgreinir þó ráðstöfunarleiðir í skilmálum sínum og setur fram gjaldskrá í tengslum við þær. Þannig er hæst endurgjald greitt fyrir endurvinnslu en minnst fyrir förgun. Skilyrði eru sett um að ráðstöfun uppfylli viðurkenndar kröfur sem settar eru af yfirvöldum þess lands þar sem ráðstöfun fer fram. 

Úrvinnslusjóður hefur takmarkað eftirlit með því hvort sú ráðstöfun sem samið er um og greitt er fyrir fari raunverulega fram. Eins hvort um sé að ræða vottuð ferli. Upp hafa komið tilvik þar sem ráðstöfun hefur ekki verið í samræmi við samninga og greiðslur líkt og þegar plastúrgangur sem sendur var til endurvinnslu og endurnýtingar í Svíþjóð hafnaði í geymslum þriðja aðila án endanlegrar ráðstöfunar. Sambærilegar aðstæður hafa komið upp innanlands.

Ný ákvæði laga um úrvinnslugjald sem tóku gildi í júní 2021 auka á skyldur Úrvinnslusjóðs að tryggja viðeigandi ráðstöfun úrgangs áður en greiðslur til samningsaðila eru inntar af hendi. Unnið er að endurskoðun skilmála og samninga við þjónustuaðila svo draga megi úr hættu á að frávik komi upp í framtíðinni. Jafnframt stefnir sjóðurinn að því að gera samninga beint við ráðstöfunaraðila til að tryggja að sjóðurinn fái sem áreiðanlegust gögn og að greiðslur úr sjóðnum endurspegli betur raunverulega ráðstöfun úrgangsins. Mikilvægt er að hraða þessari vinnu. 

Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að Úrvinnslusjóður efli þegar í stað eftirlit sitt með endanlegri ráðstöfun, uppfæri skilmála og auki kröfur um þau gögn, vottanir og upplýsingar sem ráðstöfunaraðilar veita um endanlega ráðstöfun úrgangs. Þá þarf að koma á fót markvissu innra eftirliti sem stuðlar að réttu verklagi. Mikilvægt er að auka gagnsæi varðandi forsendur endurgjalds og flutningsjöfnunar.

Aukin innlend úrvinnsla
Að mati Ríkisendurskoðunar myndi aukin innlend endurvinnsla þjóna markmiðum um hringrásarhagkerfi og einfalda eftirlit Úrvinnslusjóðs með ráðstöfun. Í ljósi þessa þarf að endurskoða fyrirkomulag flutningsjöfnunar og auka sveigjanleika í fyrirkomulagi Úrvinnslusjóðs sem mætir aðstæðum þegar um innlenda úrvinnslu er að ræða. Í lögfræðiáliti sem Úrvinnslusjóður lét vinna kemur fram að hærri greiðslur til innlendra þjónustu- og ráðstöfunaraðila en erlendra teljist í raun ríkisstyrkur. Ef ætlunin er að auka innlenda úrvinnslu með hærra endurgjaldi til innlendra aðila eða öðrum ráðstöfunum þarf eftir atvikum að gera viðeigandi breytingar á lögum og tilkynna fyrirkomulagið til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). 

Markmið og árangur
Í lögum og reglugerðum um meðhöndlun úrgangs eru sett lágmarksmarkmið um söfnun og endurvinnslu úrgangs. Þeir vöruflokkar sem hafa skilgreind markmið og Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á að séu uppfyllt eru umbúðir úr pappa, pappír og plasti, rafhlöður og rafgeymar og raf- og rafeindatæki. Með lögum nr. 103/2021 færast úr sér gengin ökutæki í umsjón Úrvinnslusjóðs frá og með 1. janúar 2023. Ekki hafa verið sett töluleg markmið um aðra úrgangsflokka en um þá gilda almenn ákvæði um forgangsröðun og meðhöndlun úrgangs. Vel hefur gengið að ná markmiðum varðandi umbúðir úr pappa og pappír og úr sér gengin ökutæki. Þá er endurvinnsla plastumbúða á pari við markmið. Markmiðum um söfnun rafhlaðna og rafgeyma hefur sömuleiðis verið náð en töluvert er í að markmiðum um söfnun, endurvinnslu- og endurnýtingarhlutfall raf- og rafeindatækja verði náð. Bæta þarf tölfræði um úrgang og meðhöndlun hans.

Veiðarfærasamningur
Heimilt er að gera sérstaka samninga um undanþágur frá úrvinnslugjaldi gegn því að atvinnurekendur eða samtök þeirra annist meðhöndlun og ráðstöfun viðkomandi úrgangsflokks. Slíkur samningur hefur verið í gildi hérlendis um árabil varðandi veiðarfæri úr gerviefnum. Umhverfisstofnun hefur gefið út í umsögn að nýr veiðarfærasamningur sem gerður var síðari hluta árs 2021 uppfylli ekki ákvæði laga um úrvinnslugjald. Samningurinn hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra. Brýnt er að umhverfis- orku og loftslagsráðuneyti skeri úr um þau álitaefni sem uppi eru varðandi samninginn svo uppfæra megi ákvæði hans í takt við núgildandi lög.
 

Lykiltölur

Endurvinnsla pappa- og pappírsumbúða
Endurvinnsla plastumbúða
Rafhlöður og rafgeymar - söfnunarhlutfall
Raf- og rafeindatæki - söfnunarhlutfall
Endurvinnsla pappa og pappírs 2016-20
Endurvinnsla plastumbúða og heyrúlluplasts 2016-20
Söfnunarhlutfall rafhlaðna og rafgeyma 2016-20