06.04.2018
Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingu sína frá 2015 til mennta- og menningarmálaráðuneytis um að móta þurfi framtíðarstefnu fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu stofnunarinnar.
Gagnrýnt er samt hve lengi stefnumótun um starfsemi safnsins hefur dregist og bent á að enn séu hnökrar á samstarfi þess við Náttúrufræðistofnun Íslands. Stofnunin telur brýnt að ráðuneytið styðji betur við uppbyggingu og starfsemi safnsins.
Frá stofnun Náttúruminjasafns Íslands árið 2007 hefur safnið ekki staðið undir lögbundnu hlutverki sínu sem höfuðsafn. Til að svo verði þarf að tryggja framtíðarhúsnæði fyrir safnið, marka því stefnu og veita því fé til samræmis við það. Framtíðarhúsnæði fyrir sýningahald hefur enn ekki verið tryggt en safnið hefur í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að undirbúningi náttúruminjasýningar í samstarfi við einkaaðila í Perlunni. Auknu fé hefur verið veitt til safnsins vegna þess verkefnis auk þess sem rekstrarframlag ríkisins hefur hækkað á undanförnum árum.
Skýr framtíðarsýn er forsenda þess að fjárveitingum til safnsins sé varið á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt. Mennta- og menningarmálaráðuneyti segir að fullmótuð stefna um varanlega uppbyggingu safnsins eigi að liggja fyrir árið 2019. Í fjármálaáætlun ársins 2019 segir jafnframt að undirbúa eigi framtíðaruppbyggingu safnsins. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að ljúka stefnumótun og áætlanagerð um uppbyggingu safnsins í samræmi við fyrirætlanir sínar og þingsályktun Alþingis frá október 2016.