22.02.2018
Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingu sína til dómsmálaráðuneytis frá árinu 2015 um að það tryggi að erlend verkefni Landhelgisgæslu Íslands verði ekki það umsvifamikil að stofnunin nái ekki að sinna hlutverki sínu við Íslandsstrendur í samræmi við lög og markaða stefnu. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar Landhelgisgæsla Íslands: Verkefni erlendis.
Alþingi samþykkti í desember 2015 breytingu á lögum 52/2006 um Landhelgisgæslu Íslands með það að markmiði að efla eftirlit ráðuneytisins með þátttöku Landhelgisgæslunnar í erlendum verkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneyti hefur Landhelgisgæslan unnið í samræmi við nýtt lagaákvæði undanfarin ár. Þegar stofnuninni hefur boðist þátttaka í erlendum verkefnum hefur hún leitað eftir afstöðu ráðuneytisins, lagt fram hættumat vegna þeirra og metið áhrif þátttöku á lögbundnar skyldur sínar. Ríkisendurskoðun telur að þar með hafi verið brugðist við áðurnefndri ábendingu með viðhlítandi hætti.