02.02.2018
Annmarkar á stjórnsýslu Isavia ohf. og Samgöngustofu og einhliða ákvarðanir innanríkisráðherra sköpuðu óvissu og töfðu varanlega lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli. Að auki hafði þetta nokkurn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð sem erfitt er að meta.
Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á lokun flugbrautarinnar sem gerð var að beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Hinn 30. desember 2013 fól innanríkisráðherra Isavia ohf. að hefja undirbúning að lokun flugbrautar 06/24. Því verkefni lauk endanlega 22. desember 2017 þegar Samgöngustofa vottaði Reykjavíkurflugvöll sem tveggja brauta völl, þ.e. án flugbrautar 06/24.
Að mati Ríkisendurskoðunar eru einkum þrjár ástæður fyrir því að lokun brautarinnar tók jafn langan tíma og raun ber vitni. Í fyrsta lagi tók innanríkisráðherra strax í desember 2013 einhliða ákvörðun um að flugbrautinni yrði ekki lokað fyrr en tillögur stýrihóps um rekstur flugvallar á höfuðborgarsvæðinu lægju fyrir. Þeim var skilað í júní 2015. Í öðru lagi hafði nýr innanríkisráðherra aðra pólitíska afstöðu til flugbrautarinnar en forveri hans og taldi skriflegt samkomulag ríkis og Reykjavíkurborgar ekki skuldbindandi fyrir ríkið. Niðurstaða fékkst í því máli með dómi Hæstaréttar í júní 2016 þar sem samkomulagið var talið fela í sér skuldbindandi stjórnvaldsákvörðun sem innanríkisráðherra hefði verið bær að taka. Þar sem báðar þessar ástæður fela í sér pólitíska ákvörðun ráðherra telur Ríkisendurskoðun ekki við hæfi að taka afstöðu til þeirra eða meta hugsanlegar afleiðingar þeirra.
Í þriðja lagi tafðist lokun flugbrautarinnar vegna vankanta á stjórnsýslu Isavia ohf. og Samgöngustofu eftir dóm Hæstaréttar. Þessir vankantar lutu einkum að skorti á formlegu samráði um þá verkferla sem lög og reglur kveða á um að fylgja beri við slíkar breytingar á flugvöllum. Samgöngustofa og Isavia ohf. eru hvött til að efla formleg samskipti sín á milli og tryggja sameiginlegan skilning á verkferlum. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að þessi mál séu færð til betri vegar, enda gæti reynt á þau komi til fyrirhugaðra breytinga á flugvallarkerfi Reykjavíkurflugvallar.
Ríkisendurskoðun telur einnig að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti þurfi að efla eftirlit sitt með verkefnum undirstofnana sinna og fylgja því eftir að verkefni sem þeim eru falin séu unnin eftir réttum verkferlum. Formlegri og markvissari samskipti má einnig tryggja með því að efna betur ákvæði þjónustusamnings ráðuneytisins við Isavia ohf. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið loks til að marka stefnu um flugvallarrekstur á höfuðborgarsvæðinu og halda áfram viðræðum við Reykjavíkurborg um þann rekstur. Vert er að geta þess að Reykjavíkurborg áformar að núverandi flugvöllur víki í áföngum fram til ársins 2024. Lokun flugbrautar 06/24 var einungis fyrsti áfanginn í þeirri áætlun.