Enn ekki merki um aukna festu í fjármálastjórn ríkisins

Almennt

20.12.2017

Tekjur ríkissjóðs á fyrri árshelmingi voru um 4,0 ma.kr umfram gjöld, samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga.

Tekjur tímabilsins námu alls 387,3 ma.kr. og gjöldin 383,4 ma.kr. Sé horft fram hjá stöðugleikaframlögunum, sem greidd voru á árinu 2016, skilaði ríkissjóður meiru handbæru fé frá rekstri á þessu ári en því síðasta. Handbært fé lækkaði hins vegar fyrstu sex mánuði ársins um 147,4 ma.kr. vegna afborgana af lánum.

Gjöld ríkissjóðs á fyrri hluta ársins námu samtals 355,3 ma.kr., alls 11,3 ma.kr. innan fjárheimilda. Alls voru gjöld 256 fjárlagaliða (64%) undir áætlun á fyrri hluta ársins, samtals um 37,5 ma.kr., en gjöld 144 fjárlagaliða (36%) voru yfir áætlun um samtals 29,0 ma.kr.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti telur að gjöld ársins kunni að hækka um tæpan 21 ma.kr. frá fjárlögum, mest vegna nokkurra málaflokka sjúkratrygginga (7,1 ma.kr.), vaxtagjalda (6,7 ma.kr.), málaflokka almannatrygginga (2,8 ma.kr.) og málaflokka sem tengjast umsóknum um alþjóðlega vernd (2,2 ma.kr.) en á móti megi gera ráð fyrir að útgjöld einstaka stærri gjaldaliða lækki frá fjárlögum, s.s. vegna vaxta- og barnabóta. Þá er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 25. ma.kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir, vegna endurmats á hagvexti og arðgreiðslum.

Ríkisendurskoðun telur að framkvæmd fjárlaga á árinu bendi ekki til þess að setning nýrra laga um opinber fjármál hafi enn sem komið er aukið til muna festu í fjármálastjórn ríkisins. Ljóst er að ráðuneytin fylgjast vel með þróun útgjalda þeirra fjárlagaliða sem undir ráðuneytin heyra og eru almennt vel upplýst um ástæðu frávika. Ráðuneyti virðast frekar bregðast við umframútgjöldum með því að fara fram á auknar fjárheimildir í stað þess að grípa til markvissra sparnaðarráðstafana.

Einn megintilgangur laga um opinber fjármál nr. 123/2015 var að stuðla að meiri fastheldni við fjárhagsáætlanir ríkisins og forðast þannig breytingar á settum fjárlögum. Að mati Ríkisendurskoðunar á enn eftir að koma í ljós hvort ráðstafanir á borð við aukna möguleika á tilfærslum milli fjárlagaliða og meiri notkun varasjóða, nái að koma í stað fjáraukalaga. Bent er á að framlög til varasjóða í fjárlögum eru lægri en lög um opinber fjármál heimila. Þá hefur tíðni Alþingiskosninga gert ríkisstjórnum erfiðara fyrir með að fylgja í hörgul þeim tímasetningum og verklagi sem nýju lögin gera ráð fyrir.

Sjá nánar

Mynd með frétt