Setja þarf skýrari málsmeðferðarreglur og efla traust

Almennt

30.11.2017

Póst- og fjarskiptastofnun er hvött til að setja sér skýrari málsmeðferðar- og verklagsreglur og bæta samskipti sín við eftirlitsskylda aðila.

Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Þá er samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hvatt til að veita stofnuninni nauðsynlegan stuðning og aðhald, efla starfsemi fagráðs á sviði fjarskipta, ljúka gerð nýrrar fjarskiptaáætlunar og setja reglugerð um framkvæmd eftirlits stofnunarinnar.

Innanríkisráðuneyti (nú samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti) fór þess á leit við Ríkisendurskoðun í nóvember 2016 að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á tilteknum þáttum Póst- og fjarskiptastofnunar, þ. á m. hvernig stofnunin sinnir lögbundnu hlutverki sínu og eftirliti. Meginástæður beiðninnar voru ítrekaðar kvartanir eftirlitsskyldra aðila vegna ákvarðana stofnunarinnar og samskipta við hana.

Á árunum 2013-16 birti Póst- og fjarskiptastofnun alls 136 stjórnvaldsákvarðanir. Þar af voru 25 kærðar til útskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem felldi fjórar þeirra (16%) úr gildi. Þetta er vel innan skilgreindra árangursviðmiða stofnunarinnar og gefur vísbendingu um að hún vinni ákvarðanir sínar almennt vel og í samræmi við lög. Þrátt fyrir það leiddi úttekt Ríkisendurskoðunar í ljós að hluti þeirra eftirlitsskyldu aðila sem eiga í miklum samskiptum við stofnunina ber tak­markað traust til Póst- og fjarskiptastofnunar. Eins hefur umboðsmaður Alþingis bent stofnuninni á mikilvægi vandaðra stjórnsýsluhátta.

Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að Póst- og fjarskipta­stofnun bregð­ist á viðunandi hátt við aðfinnslum um málsmeðferð og stjórnsýsluhætti, þ.e. noti þær sem tækifæri til úrbóta og til að efla traust á stofn­uninni. Liður í því gæti verið að setja sér skýrari málsmeðferðarreglur og sérstök árangursviðmið vegna stjórnvaldsákvarðana og bæta samskipti sín við eftirlitsskylda aðila. Mikilvægt er að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti styðji stofnunina í þessari viðleitni, m.a. með því að nýta fagráð á fjarskiptasviði sem vettvang uppbyggilegra skoðanaskipta og með því að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits stofnunarinnar til að tryggja að málsmeðferð hennar sé bæði gagnsæ og samræmd.

Sjá nánar

Mynd með frétt