Hvatt til endurskoðunar á grænni stefnu

Skýrsla til Alþingis

14.11.2017

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti til að ljúka fyrirhugaðri endurskoðun á stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur.

Stefnan þarf að stuðla að aukinni þátttöku ráðuneyta og stofnana í grænum ríkisrekstri og rétt er að kanna hvort skylda eigi ríkisaðila til að stunda vistvæn innkaup í skilgreindum vöruflokkum. Ráðuneytin eru einnig hvött til að skoða hvort skylda eigi ríkisaðila til að halda grænt bókhald sem getur leitt til aukinnar hagkvæmi í ríkisrekstri og veitt betri upplýsingar um umhverfisáhrif hans en nú eru fáanlegar. Þá þarf að tengja nýja stefnu við önnur markmið stjórnvalda í umhverfismálum, s.s. í loftslagsmálum.

Stefna um vistvæn innkaup hefur verið í gildi frá árinu 2009 og árið 2013 var sett fram ný og endurskoðuð stefna, Vistvæn innkaup  og grænn ríkisrekstur, stefna ríkisins 2013-16. Við lok árs 2016 var ráðgjafafyrirtækið Alta ehf. fengið til að meta hvernig hefur gengið að innleiða stefnuna. Þar kom m.a. fram að hún hafi einungis náð að ganga fram að hluta og að leggja þurfi auknar kröfur á ríkisaðila í umhverfismálum til að ná lengra. Með stefnunni hafi þó verið lagður góður faglegur grunnur, fræðsluefni hafi verið útbúið og verkfæri eins og Græn skref og grænt bókhald útfærð og gerð aðgengileg.

Sjá nánar