18.10.2017
Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að hraða nýliðun hjúkrunarfræðinga til að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum innan íslensks heilbrigðiskerfis. Verði ekki gripið til viðhlítandi ráðstafana gæti sá skortur haft óæskileg áhrif á gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga.
Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um mönnun, menntun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga er bent á að í lok árs 2016 hafi um 225 stöðugildi hjúkrunarfræðinga verið ómönnuð innan íslensks heilbrigðiskerfis. Að auki sé talið að fjölga þurfi stöðugildum um 180. Þar sem hjúkrunarfræðingar eru almennt í um 70% starfshlutfalli má ætla að um 570 hjúkrunarfræðinga vanti til starfa í heilbrigðiskerfinu. Til samanburðar má geta að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa síðustu fimm ár að jafnaði útskrifað samtals 127 hjúkrunarfræðinga árlega. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að að um fimmtungur starfandi hjúkrunarfræðinga öðlast rétt til töku lífeyris á næstu þremur árum. Loks bendir margt til þess að álag í heilbrigðisþjónustu aukist á komandi árum, m.a. vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar.
Í skýrslu sinni hvetur Ríkisendurskoðunar velferðarráðuneyti til að móta stefnu um mönnun hjúkrunarfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja gæði þjónustunnar. Sömuleiðis hvetur stofnunin ráðuneytið til að vinna markvisst að því að gera íslenskar heilbrigðisstofnanir samkeppnishæfar um starfskrafta hjúkrunarfræðinga. Í því sambandi er vakin athygli á því að um 10% menntaðra hjúkrunarfræðinga á starfsaldri vinnur ekki við hjúkrun og um 9% þeirra eru búsettir erlendis.
Einnig hvetur Ríkisendurskoðun mennta- og menningarmálaráðuneyti til að beita sér fyrir fjölgun nema í hjúkrunarfræði og að endurskoða flokkun hjúkrunarfræðináms í reiknilíkani háskólanna, sérstaklega með tilliti til þess hve veigamikill klínískur (verklegur) hluti námsins er.
Loks hvetur Ríkisendurskoðun Embætti landlæknis til að auka eftirlit með mönnun hjúkrunarfræðinga og kanna hvort hún sé í samræmi við umfang og eðli þjónustunnar. Jafnframt telur stofnunin mikilvægt að hugað sé að kostum þess að setja viðurkennd viðmið um lágmarksmönnun hjúkrunarfæðinga.