14.09.2017
Ríkisendurskoðun telur að mennta- og menningarmálaráðuneyti og Hólaskóli hafi að mestu brugðist við níu ábendingum stofnunarinnar frá árinu 2011 sem ítrekaðar voru árið 2014.
Þessar ábendingar, sem m.a. lutu að rekstri skólans og stöðu hans innan háskólakerfisins, eru því ekki ítrekaðar nú. Þar sem skólinn var enn rekinn með halla árið 2016 mun Ríkisendurskoðun þó fylgjast áfram með þróuninni og taka málið upp að nýju verði þess þörf.
Ráðuneytið hefur skilgreint stöðu Hólaskóla innan háskólakerfisins og ákveðið að hann starfi áfram sem opinber háskóli. Einnig hefur verið gripið til aðgerða vegna uppsafnaðrar skuldar skólans við ríkissjóð og hafa ráðuneytið og skólinn unnið að því að koma viðskiptakröfum í eðlilegt horf. Árið 2016 fékk skólinn 161,2 m.kr. aukaframlag auk sérstakrar 15 m.kr. fjárveitingar í fjárlögum 2017. Gert er ráð fyrir að Hólaskóli skili tekjuafgangi í lok árs 2017 en að höfuðstóll verði enn neikvæður.
Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að rekstur skólans sé ætíð innan fjárheimilda. Þá hvetur stofnunin til þess að gengið verði sem fyrst frá samningi Hólaskóla við Sveitarfélagið Skagafjörð um þjónustu til þess að greina megi milli skóla- og staðarhalds á Hólum.