01.06.2017
Við kaup ráðuneyta á sérfræðiþjónustu á árunum 2013-15 skorti iðulega á að gerðir væru skriflegir samningar um þjónustuna, að val á verksala væri gagnsætt og að rammasamningar Ríkiskaupa væru nýttir.
Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Kaup ráðuneyta á sérfræðiþjónustu. Stofnunin hvetur ráðuneytin til að bæta og samræma verklag sitt við þessi kaup. Eins telur stofnunin mikilvægt að ráðuneyti beiti í auknum mæli verðkönnunum, hæfnismati og útboðum til að tryggja hagkvæmni og skilvirkni. Slíkt stuðlar einnig að gagnsæi og jafnræði meðal aðila á markaði.
Á árunum 2013-15 greiddu ráðuneytin rúmlega 2,5 ma.kr. fyrir sérfræðiþjónustu. Einkum var um að ræða lögfræðiþjónustu, rekstrarráðgjöf og aðra sérfræðiþjónustu. Á þessu tímabili var opinberum aðilum skylt að bjóða út kaup á sérfræðiþjónustu, að undanskilinni lögfræðiþjónustu, þegar þau fóru umfram 12,4 m.kr. Á þessa útboðsskyldu reyndi sjaldan. Oft var hins vegar látið hjá líða að nota rammasamninga Ríkiskaupa, jafnvel þótt verksalar væru aðilar að þeim samningum. Ríkisendurskoðun telur þetta gagnrýnivert og grafa undan rammasamningum. Þá hvetur stofnunin Ríkiskaup til að gera nýjan rammasamning um lögfræðiþjónustu en síðasti samningur af þessum toga rann út í september 2013.
Í skýrslu sinni tók Ríkisendurskoðun samninga fjármála- og efnahagsráðuneytis við lögmannsstofuna Juris slf. til sérstakrar skoðunar. Á tímabilinu greiddi ráðuneytið stofunni alls 107 m.kr., að stærstum hluta vegna þjóðlendumála. Samningur komst á með tölvupóstsamskiptum árið 2006. Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við að ekki hafi verið staðið betur að samningsgerð, ekki síst vegna þess að ráðuneytið fer með málefni opinberra innkaupa og ættu innkaup þess að vera til fyrirmyndar. Ráðuneytið er hvatt til að endurskoða samning sinn við lögmannsstofuna og tryggja jafnræði og gagnsæi við kaup sín á sérfræðiþjónustu.