09.05.2017
Nýlega birti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) á heimasíðu sinni athugasemdir við stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (apríl 2017).
Þar fagnar HH skýrslunni og telur hana staðfesta ýmsa vankanta á skipulagi heilbrigðiskerfisins og geyma bæði heildstæða umfjöllun og margar góðar ábendingar. Um leið fullyrðir stofnunin að Ríkisendurskoðun „hefði mátt kynna sér málið betur“ og að í skýrslunni séu „ályktanir sem ekki eiga við rök að styðjast og upplýsingar sem eru úreltar og eiga ekki lengur við“. Að mati Ríkisendurskoðunar eru þessi ummæli úr lausu lofti gripin, a.m.k. miðað við þau dæmi sem HH velur máli sínu til stuðnings.
Skertar fjárveitingar í áratug
Í umfjöllun sinni getur HH þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar komi fram „að á árunum 2007 til 2016 hafi fjárframlög til HH aukist um 3% að raunvirði þótt íbúum svæðisins fjölgaði um 11%“. Þar sé þó aðeins hálf sagan sögð, segir HH, og bætir við. „Ef litið er framhjá launa- og verðlagsbótum voru fjárveitingar til HH á árinu 2016 í raun 9% lægri en þær voru fyrir hrun og hefur stofnunin því orðið að halda uppi þjónustu á skertum fjárveitingum síðast liðinn áratug og gerir enn.“
Vegna þessara orða minnir Ríkisendurskoðun á að í skýrslunni eru fjárveitingar til HH skoðaðar frá tveimur hliðum. Á blaðsíðu 17 er greint frá þróun útgjalda ríkissjóðs til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sérgreinalækna frá 2007–16 miðað við verðlag 2016 og nefnt að á þessu tímabili hafi raunútgjöld ríkissjóðs til HH aukist um 3% þegar tekið er tillit til þróunar vísitölu neysluverðs. Á sama tímabili hafi raunútgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna þjónustu sérgreinalækninga aukist um 57%.
Á blaðsíðu 18 lýsir Ríkisendurskoðun síðan þróun raunútgjalda ríkissjóðs til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og sérgreinalækna á mann miðað við fólksfjöldaþróun og verðlagsbreytingar frá 2007–16. Þar er tekið skýrt fram að á þessu tímabili hafi raunútgjöld ríkisins til HH lækkað um tæp 9% meðan þau jukust um 42% til sérgreinalækna. Í framhaldinu bendir stofnunin á „að uppbygging heilbrigðiskerfisins hafi ekki tekið nægilega mið af því markmiði að heilsugæslan eigi að jafnaði að vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu“. Ríkisendurskoðun fær með öðrum orðum ekki séð hvað vantar í söguna að mati HH.
Hagsmunaárekstrar og helgunarálag
Í skýrslu sinni vekur Ríkisendurskoðun athygli á þeirri hættu á hagsmunaárekstrum sem felst í því að margir læknar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfa líka hjá Læknavaktinni ehf. og eru jafnvel hluthafar þar. Samkvæmt nýju fjármögnunarkerfi sem tók gildi 1. janúar 2017 færist fé frá heilsugæslustöðvum til Læknavaktarinnar ef skjólstæðingar þeirra leita þangað. Vegna þessa hvatti Ríkisendurskoðun HH til að sjá til þess að starfsfólk stofnunarinnar tilkynni um önnur launuð störf sem það tekur að sér og leiti samþykkis fyrir þeim. Eins þurfi HH að tryggja að leyfð aukastörf starfsfólks samræmist aðalstarfi þess. Um hvort tveggja er kveðið á í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að mati Ríkisendurskoðunar er rétt að HH verndi með þessum hætti fjárhagslega og faglega hagsmuni sjálfs sín og ríkissjóðs. Þar með er ekki dregin í efa nauðsyn þess að veita kvöld- og helgarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu eða því haldið fram að henni verði sinnt án aðkomu lækna HH.
Í skýrslu sinni bendir Ríkisendurskoðun líka á að læknar hjá HH hafa fengið sérstakt 15% helgunarálag sinni þeir í starfi sínu verkefnum sem krefjast þess að þeir vinni eingöngu á viðkomandi stofnun. Dæmi séu þó um að þeir séu á sama tíma starfsmenn Læknavaktarinnar ehf. Að mati Ríkisendurskoðunar verður að teljast óeðlilegt að greiða starfsfólki uppbót fyrir helgun í starfi þegar slík helgun á sér ekki stað. Af þessum sökum hvatti stofnunin HH til að taka þetta mál til skoðunar. Í athugasemdum sínum segir HH að ekki verði séð að hún geti sagt upp þessu fyrirkomulagi einhliða án þess að setja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í uppnám. Vegna þeirra orða skal bent á að Ríkisendurskoðun hvetur HH alls ekki til slíkra aðgerða í skýrslu sinni.
Samskiptavandi eða ólíkar faglegur áherslur
Í skýrslu sinni fjallar Ríkisendurskoðun í stuttu máli um samskiptavanda innan yfirstjórnar HH á undanförum árum sem velferðarráðuneyti hafi lengi vitað um. Jafnframt hvetur stofnunin ráðuneytið til að leggja sitt af mörkum við að leysa hann enda hafi hann haft hamlandi áhrif á starfsemi og árangur HH. Í viðbrögðum sínum tekur ráðuneytið fram að unnið sé að því að leysa vandann með þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga. Í athugasemdum sínum fullyrðir HH á hinn bóginn að stofnunin líti á þennan vanda sem hluta af fortíðinni og hafi hann stafað af mismunandi skoðunum á þeim faglegu áherslum sem leggja ber til grundvallar hverju sinni. „Slíkur skoðanamunur var vissulega til staðar um tíma innan yfirstjórnar HH en er ekki lengur fyrir hendi og því vart þörf á aðkomu velferðarráðuneytisins vegna þessa.“
Ríkisendurskoðun fagnar því að sjálfsögðu ef úttekt velferðarráðuneytis leiðir í ljós að umræddur vandi er úr sögunni. Miðað við samtöl Ríkisendurskoðunar við ýmsa starfsmenn HH var hann þó fyrir hendi til skamms tíma og af þeim sökum var eðlilegt að geta hans í skýrslu stofnunarinnar.
Skipulagsbreytingar og bætt þjónusta
Í athugasemdum sinum víkur HH loks að nýju skipulagi á heilsugæslustöðvum stofnunarinnar sem miðar að því að bæta þjónustuna við nærsamfélagið með aukinni teymisvinnu. Í þessu sambandi er þó ekki vikið að neinum annmörkum í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þvert á móti er tekið fram að stofnunin dragi fram flesta þá þætti sem skipta máli í þessu samhengi.
Niðurstaða
Þegar á allt er litið verður ekki séð hvaða mál Ríkisendurskoðun hefði mátt skoða betur, hvaða ályktanir hennar eiga ekki við rök að styðjast eða hvaða úreltu upplýsingar koma fram í skýrslunni.