29.08.2022
Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á starfsemi Úrvinnslusjóðs sem byggði á beiðni Alþingis frá 31. maí 2021. Fulltrúar embættisins kynntu niðurstöður úttektarinnar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fyrr í dag.
Í skýrslunni er fjallað um tilurð Úrvinnslusjóðs og starfsemi hans. Farið er yfir greiðslur úr sjóðnum sl. fimm ár ásamt því að skoða hvernig eftirliti er háttað með meðhöndlun og afdrif úrgangs. Þá er farið yfir hvernig sjóðnum miðar að ná tölulegum markmiðum um söfnun, endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs.
Í úttekt Ríkisendurskoðunar eru lagðar fram tillögur til úrbóta í sex liðum. Styrkja þarf starfsemi Úrvinnslusjóðs, skrá þarf verkferla, koma á innra eftirliti og uppfæra skilmála um meðhöndlun úrgangsflokka með reglubundnum hætti. Bæta þarf eftirlit með innheimtu úrvinnslugjalds og tryggja að þeir sem greiða eiga gjaldið skili sér á gjaldendaskrá. Jafnframt þarf að endurskoða tollskrárnúmer með tilliti til úrvinnslugjalda.
Koma þarf á skilvirkum leiðum til að sannreyna raunveruleg afdrif úrgangs að því marki sem unnt er. Setja þarf fram skýra skilmála um hvaða gagna er krafist til staðfestingar og hvernig vottun þeirra skuli háttað. Einnig þarf að skoða möguleika þess að stuðla að aukinni endurvinnslu innanlands.
Efla þarf stuðning umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis þegar upp koma álitamál í starfsemi Úrvinnslusjóðs og greiða úr ólíkri túlkun innan stjórnar sjóðsins. Þá þarf ráðuneytið að leggja aukna áherslu á gæði og áreiðanleika gagna og tölfræði um úrgang.