06.02.2023
Ríkisendurskoðun hefur lokið stjórnsýsluúttekt á stjórnsýslu sjókvíaeldis. Úttektin leiddi í ljós að umgjörð sjókvíaeldis við Íslandsstrendur hefur einkennst af veikburða og brotakenndri stjórnsýslu sem var vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif í greininni á undanförnum árum. Breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mest hefur mætt á. Þetta er á meðal helstu niðurstaðna í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar Sjókvíaeldi: lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit. Þar eru settar fram 23 ábendingar um ýmsar úrbætur sem stofnunin telur að þurfi að gera á stjórnsýslu málaflokksins.
Meðal ábendinga Ríkisendurskoðunar er að Matvælaráðuneyti þarf að grípa til ráðstafana svo afmörkun og útboð eldissvæða verði að veruleika, skýra þarf framkvæmd burðarþolsmats, taka þarf leyfisveitingaferli sjókvíaeldis til endurskoðunar og auka samstarf stofnana og ráðuneyta. Efla verður eftirlit Matvælastofnunar, taka starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til skoðunar og endurskoða lög nr. 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Skoða þarf hvort og hvernig megi efla mótvægisaðgerðir og vöktun vegna stroks og tryggja markvissa beitingu þvingunarúrræða, sekta og afturköllun rekstrar- og starfsleyfa í þeim tilfellum sem ákvæðum þeirra er ekki fylgt.