Ýmsu er ábótavant í fullnustumálum

Skýrsla til Alþingis

04.12.2023

Ýmsu er ábótavant í starfsemi og starfsumhverfi Fangelsismálastofnunar. Fyrir vikið er íslenskt fullnustukerfi hvorki rekið með þeirri skilvirkni né þeim árangri sem lög gera ráð fyrir. Engin heildarstefna á sviði fullnustumála hefur verið mótuð og þá valda húsnæðismál Fangelsismálastofnunar og undirmönnun því að markmiðum fullnustulaga um endurhæfingu fanga hefur ekki verið náð nema að óverulegu leyti. Fangelsismálastofnun þarf að huga að vinnustaðamenningu og festa í sessi lögboðna menntun fangavarða. 

Takmarkað framboð á afplánunarrýmum hefur valdið því að erfiðlega hefur gengið að stytta boðunarlista samhliða almennri fjölgun og þyngingu fangelsisdóma. Sterkar vísbendingar eru um að sú þróun muni halda áfram. Þá er nokkuð um að dómar fyrnist af þeim sökum. Ástand bygginga stærsta fangelsis landsins á Litla-Hrauni er mjög slæmt og má ætla að ástand margra húsa ógni heilsu starfsfólks og fanga. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um byggingu nýs fangelsis á staðnum telur Ríkisendurskoðun brýnt að viðhaldi eldri bygginga verði sinnt meðan á framkvæmdum stendur enda er ekki áætlað að þeim ljúki fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2028.  

Úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi enn fremur í ljós að mörgum þáttum er lúta að heilbrigðisþjónustu við fanga, menntun þeirra og annarri virkni er ábótavant. Brýnt er að fangelsismálayfirvöld vinni sameiginlega með heilbrigðs-, mennta- og félagsmálayfirvöldum að heildarstefnu á sviði fullnustumála til að efla endurhæfingu fanga með það að markmiði að fækka endurkomum í fangelsi. Þá ber að vekja sérstaka athygli á að ekki hefur verið horft nægjanlega til stöðu kvenfanga við uppbyggingu og skipulag íslensks fangelsiskerfis. Ekki er til staðar sérstakt afplánunarúrræði fyrir konur og hafa þær minni aðgang en karlar að meðferðarúrræðum meðan á afplánun stendur. 

Í skýrslunni eru settar fram níu ábendingar. Fjórum ábendingum er beint til dómsmálaráðuneytis og snúa þær að mótun heildarstefnu, bættri stöðu kvenna í fangelsum landsins og flutningi á rekstri og umsjón fangelsisbygginga frá Fangelsismálastofnun til Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna. Loks að áhersla verði lögð á nauðsynlegar endurbætur á Litla-Hrauni og byggingu nýs fangelsis. Í þremur ábendingum til Fangelsismálastofnunar er stofnunin hvött til að festa betur í sessi nám og endurmenntun fangavarða, efla greiningu öryggisatvika og vinna að bættri vinnustaðamenningu. Þá er því beint til heilbrigðisráðuneytis að tryggja að fangar fái þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa og eiga óumdeildan rétt á. Loks er brýnt fyrir mennta- og barnamálaráðuneyti að tryggja að vinnu starfshóps um menntun fanga og fangavarða ljúki sem fyrst. Sú vinna hefur dregist langt fram úr hófi án haldbærra skýringa þar á. 

Sjá nánar skýrsluna: Fangelsismálastofnun - Aðbúnaður, endurhæfing og árangur

Mynd með frétt