Skil á ársreikningum kirkjugarða óviðunandi

Kirkjugarðar og sóknir

05.03.2024

Ríkisendurskoðun hefur nú birt útdrátt úr ársreikningum kirkjugarða fyrir rekstrarárið 2022. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með ársreikningum kirkjugarða sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Kirkjugarðsstjórnum er samkvæmt sömu lögum skylt að senda ársreikninga næstliðins árs til embættisins fyrir 1. júní ár hvert. 

Í hinum níu prófastsdæmum landsins eru 244 kirkjugarðar sem skila eiga ársreikningum til Ríkisendurskoðunar vegna rekstrarársins 2022. Í janúar 2024 höfðu embættinu borist ársreikningar frá 143 kirkjugörðum og höfðu því um 59% ársreikninga borist sjö mánuðum eftir eindaga skila. Skil ársreikninga kirkjugarða hafa farið versnandi undanfarin ár og eru að mati Ríkisendurskoðunar óviðunandi. Skilin voru um 54% vegna rekstrarársins 2021 og um 76% vegna rekstrarársins 2020.

Frá og með tekjuárinu 2022 var skilum á ársreikningum kirkjugarða til Ríkisendurskoðunar breytt og því beint til aðila að skila ársreikningum stafrænt. Þá voru gerðar breytingar á sundurliðun tekna og eru nú þær tekjur sem áður kölluðust „kirkjugarðsgjöld“ í tekjuhlið ársreikninga sundurliðaðar í grafartekjur og umhirðutekjur. Þá er styrkur frá Kirkjugarðasjóði tilgreindur sérstaklega. Er því framsetningin með öðrum hætti en sl. ár. 

Sjá nánar skýrslu um skil ársreikninga kirkjugarða fyrir árið 2022
 

Mynd með frétt